Skip to main content

Blak: Þróttur kominn í fjórða sætið

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. mar 2012 21:36Uppfært 08. jan 2016 19:22

blak_hk_throtturn_ymir_throtturr_0055_web.jpg
Þróttur Neskaupstað náði fjórða sætinu í 1. deild kvenna í blaki, sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni, þegar liðið lagði Ými í síðasta heimaleik leiktíðarinnar á laugardag.

Þótt Þróttur ynni með þremur hrinum gegn engri var sigurinn ekki jafn öruggur og þær tölur gefa til kynna. Fyrsta hrinan var mjög spennandi en hana vann Þróttur 25-22. Þróttur hafði meiri yfirburði í annarri hrinu sem liðið vann 25-12.

Gestirnir voru yfir framan af þriðju hrinu en heimastúlkur jöfnuðu í 15-15. Þær stungu síðan af og unnu 25-18.
 
Í liði Þróttar Nes var Lilja Einarsdóttir atkvæðamest með 12 stig en Hulda Elma Eysteinsdóttir gerði 11 stig. Í liði Ýmis var Birna Hallsdóttir stigahæst með 4 stig.
 
Með sigrinum komst Þróttur upp fyrir Ými í baráttunni um fjórða sætið sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni. Liðið er með fimmtán stig í fjórða sæti, stigi á eftir Þrótti Reykjavík en tveimur stigum á undan Ými. Afturelding og HK eru langefst í deildinni.

Þróttarliðið spilar gegn Eik í undanúrslitum bikarkeppninnar í Laugardalshöll á laugardag en úrslitin fara fram á sunnudag. Liðið á tvo deildarleiki eftir, gegn HK og Þrótti Reykjavík.