Skip to main content

Blak: Luku deildakeppninni á sigrum á Þrótti R./Fylki

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. mar 2017 08:20Uppfært 28. mar 2017 10:39

Karlalið Þróttar Neskaupstað spilaði um helgina síðustu leiki sína í Mizuno-deild karla í blaki. Þeir voru gegn sameiginlegu liði Þróttar R. og Fylkis. Þeir unnust báðir en með talsverðri fyrirhöfn.


Fyrri leikurinn var á laugardag og vannst hann 2-3. Reykjavíkurliðið hafði yfirburði í fyrstu hrinunni 25-14 en Þróttur svaraði strax 11-25. Heimaliðið vann þriðju hrinu 25-23 en Norðfjarðarliðið þá fjórðu 15-25.

Var þá komið að einhverri æsilegustu oddahrinu sem sögur fara af í lengri tíma en Norðfjarðarliðið vann hana 20-22. Vanalega þarf aðeins 15 stig til að vinna oddahrinu en hana verður að vinna með tveggja stiga mun og sá munur var lengi að nást.

Seinni leikurinn var í gær og hann vann Þróttur Neskaupstað 1-3 eða 22-25, 13-25, 25-15, 17-25.

Endanleg staða deildarinnar er ljós þótt topplið HK og Stjörnunnar eigi enn einn leik eftir. Þróttur endar í þriðja sæti og mætir HK í úrslitakeppninni. Fyrsti leikurinn verður næsta laugardag í Fagralundi.