Blak: Kvennaliðið vann síðasta heimaleik vetrarins
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. feb 2025 10:46 • Uppfært 24. feb 2025 10:46
Kvennalið Þróttar Neskaupstað vann Þrótt Reykjavík þegar liðin mættust í Neskaupstað í helgina. Bæði karla- og kvennaliðið frá Norðfirði léku á laugardag sína síðustu heimaleiki í deildinni í vetur.
Kvennaliðið byrjaði á að vinna tvær fyrstu hrinurnar 25-23. Þær þróuðust með svipuðum hætti. Í báðum var liðið með mikla forustu lengst af en Reykjavíkurliðið náði að saxa á hana í lokin.
Þróttur Reykjavík vann þriðju hrinuna 17-25. Sú fjórða var nokkuð jöfn en Þróttur tryggði sér sigur í henni með frábærum endaspretti, skoraði síðustu sex stigin og vann 25-18.
Kvennaliðið er sem stendur í sjötta sæti með 12 stig úr 16 leikjum. Liðið á leik til góða á Þrótt Reykjavík sem er stigi ofar og því ekki útilokað að Norðfjarðarliðið geti komist upp í fimmta sætið á lokasprettinum.
Karlalið Þróttar Neskaupstað spilaði líka gegn Reykjavíkurliðinu í Neskaupstað á laugardag. Fyrsta hrinan var nokkuð jöfn, en gestirnir unnu hana 22-25. Sú næsta endaði með sömu stigatölu en spilaðist öðruvísi. Norðfjarðarliðið var undir 12-17 en náði þá góðum kafla og komst meira að segja yfir 21-20. Þróttur Reykjavík hafði loks yfirburði í þriðju hrinunni, 16-25.
Þróttur Neskaupstað keyrði svo beint norður á Húsavík í gær og spilaði gegn Völsungi. Liðið byrjaði á hörku hrinu sem það vann 27-29 eftir upphækkun. Völsungur var með unna hrinu í höndunum í stöðunni 24-20 en Þróttur skoraði þá fjögur stig í röð og fékk nokkur færi til að vinna áður en það hafðist.
Völsungur hafði yfirburði í næstu tveimur hrinum, vann þær 25-17 og 25-15. Sú síðasta var jöfnust, endaði 25-23 en Þróttur var alltaf skrefinu á eftir.
Karlaliðið er í neðsta sætinu með 8 stig úr 19 leikjum. Hvort lið Þróttar á eftir tvo útileiki, annars vegar um næstu helgi, hins vegar 22. mars.
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða