Skip to main content

Blak: Kvennaliðið náði fimmta sætinu

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. mar 2025 10:26Uppfært 04. mar 2025 10:28

Kvennalið Þróttar Neskaupstað er komið í fimmta sæti úrvalsdeildar kvenna í blaki, hársbreidd á undan Þrótti Reykjavík, eftir sigur á Álftanesi á útivelli um helgina. Heilmiklar sveiflur voru í leiknum sem fór í oddahrinu.


Álftanes fór betur af stað í fyrstu hrinu en um hana miðja snéri Þróttur dæminu sér í vil og vann 19-25 með góðum endaspretti. Í annarri hrinu var Þróttur almennt með yfirhöndina, var yfir 17-18 en fataðist flugið í lokin og tapaði 25-23.

Frábær endasprettur var lykillinn að baki sigri Þróttar í þriðju hrinu 19-25. Í fjórðu hrinu virtist Þróttur vera að klára leikinn og sækja þrjú stig þegar liðið var 17-21 yfir. Þá fór allt í baklás, Álftanes skoraði átta stig í röð og knúði fram oddahrinu.

Í henni hafði Þróttur yfirburði og vann 10-15. En þegar leikir fara í oddahrinu fær tapliðið eitt stig úr úr leiknum en sigurliðið aðeins tvö.

Þróttur náði því fimmta sætinu en er jafn Þrótti Reykjavík með 17 stig. Þróttur Neskaupstað hefur unnið fleiri leiki en Þróttur Reykjavík á leik til góða. Þróttur Neskaupstað er þó öruggur með sæti í úrslitakeppninni.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða