Skip to main content

Blak: Kvennalið Þróttar styrkti stöðu sína

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. jan 2016 19:06Uppfært 25. jan 2016 19:30

Kvennalið Þróttar virðist vera langt komið með að tryggja sér þriðja sæti Mizuno-deildar kvenna í blaki eftir sigur á KA um helgina. Karlaliðið heldur sínu sæti þrátt fyrir tvö töp nyrðra.


Kvennaliðið tók forustuna strax í upphafi leiks gegn KA og vann fyrstu hrinuna 16-25. Þróttur komst í 4-0 en KA liðið jafnaði í 5-5. Eftir það var jafnt á tölum upp í 11-11 þegar Þróttur skoraði 3 stig í röð. KA tók þá leikhlé en það breytti engu og Þróttur hélt áfram á sömu braut.

Í annarri hrinu komst Þróttur í 1-9 og hreinlega pakkaði heimaliðinu saman 11-25. Í þriðju og síðustu hrinunni komst KA í 2-0 en Þróttur svaraði strax með fjórum stigum í röð, stakk aftur af og vann 11-25.

Þróttur er í þriðja sæti deildarinnar með 19 stig en hefur í síðustu leikjum rifið sig frá keppinautunum í Stjörnunni og KA með góðum sigrum á þeim.

Karlaliðið reið ekki feitum hesti frá viðureignum sínum við KA um helgina. KA vann reyndar fyrri leikinn í oddahrinu sem þýðir að Þróttarliðið fær eitt stig úr honum.

KA vann fyrstu hrinuna 25-17 en Þróttur svaraði með að vinna næstu tvær, 22-25 og 19-25. KA hafði öll tök í fjórðu hrinu og vann hana 25-20. Oddahrinan var síðan afar spennandi en KA vann hana loks í upphækkun, 16-14.

Sá leikur virðist hafa reynt mjög á Þróttarliðið sem steinlá 3-0 á laugardag. KA vann hrinurnar 25-19, 25-18 og 25-11 og hafði í þeim nokkra yfirburði.

Þrátt fyrir ósigrana heldur Þróttur enn þriðja sætinu, er með 18 stig en KA 14 og hafa bæði lið leikið 12 leiki.