Blak: Karlaliðið átti ekki roð í KA
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. feb 2025 10:13 • Uppfært 17. feb 2025 10:20
Karlalið Þróttar tapaði tveimur leikjum gegn KA í síðustu leikjum, annars vegar í úrvalsdeildinni, hins vegar í bikar. U-20 ára lið Þróttar eru hins vegar á ágætu róli.
Liðin spiluðu fyrst bikarleik á miðvikudagskvöld á Akureyri. KA vann fyrstu hrinu með yfirburðum, 25-13 en Þróttur átti virkilega góða aðra hrinu.
Liðið var yfir 12-18 en missti það niður. Því tókst að vinna sig til baka og komast í 20-23. KA svaraði því en þrisvar sinnum átti Þróttur samt eftir að eiga möguleika á að vinna hrinuna. Það gekk ekki og KA vann að lokum, 29-27. Heimaliðið vann síðan þriðju hrinuna 25-18.
Liðin mættust síðan aftur í deildinni í Neskaupstað á föstudagskvöld í leik þar sem yfirburðir KA voru algjörir. Liðið vann fyrstu hrinuna 14-25. Í annarri hrinunni var ekki jafnt eftir að hún hófst, KA vann hana 19-25. Framfarir Þróttar í þeirri þriðju fólust í að jafna í 1-1, síðan vann KA 19-25.
Með sigrinum náði KA aftur toppsæti deildarinnar. Þróttur er á botninum með 8 stig úr 17 leikjum.
U-20 ára lið karla náði þó fram einhverjum hefndum um helgina, það vann KA í 1. deildinni 3-1. Í deildinni eru einnig haldin helgarmót og eitt slíkt fór fram í Neskaupstað um helgina. Þróttur vann þar alla fimm leiki sína og er jafnt KA á toppi deildarinnar.
Þar var líka leikið helgarmót í U-20 ára deild kvenna. Lið Þróttar vann þrjá af fimm leikjum sínum og er í öðru sæti deildarinnar.
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða