Skip to main content

Blak: Karlalið Þróttar kominn með stig eftir fyrstu leikhelgina

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. sep 2025 08:14Uppfært 23. sep 2025 08:16

Karlalið Þróttar í blaki sótti sitt fyrsta stig á fyrstu leikhelgi úrvalsdeildarinnar þegar liðið tapaði fyrir Vestra á Ísafirði í oddahrinu. Verr gekk í hinum leiknum sem liðin léku.


Liðin mættust fyrst á laugardag og þá vann Vestri 3-0. Fyrsta hrinan var jöfn þótt Vestri væri alltaf skrefinu á undan og ynni hana 25-22.

Þróttur var yfir framan af annarri hrinu. Í blálokin hrökk þó allt í baklás, eftir að staðan var 19-18 vann Vestri 25-19. Þróttur var yfir um miðbik þriðju hrinu, 14-16 en Vestri skoraði þá sex stig í röð. Þróttur kom muninum aftur niður í eitt stig, 22-21, en þá kláraði Vestri með þremur stigum.

Raul Asensio var langstigahæstur Þróttar. Miðað við tölfræðigreiningu leiksins munaði helst um betri vörn Ísfirðinga sem fengu 10 stigum meira úr blokk en Þróttur.

Oddahrina í seinni leik


Liðin léku aftur á sunnudag og þá vann Vestri 3-2 í oddahrinu. Þróttur byrjaði á að vinna fyrstu hrinu 21-25 og var klárlega sterkara liðið. Vestri svaraði 25-22 eftir jafna aðra hrinu og var síðan töluvert sterkara í þeirri þriðju, sem það vann 25-21.

Þróttur byrjaði fjórðu hrinuna hrikalega, lenti undir 7-1 en vann sig til baka, jafnaði fyrst í 17-17 og vann hana 23-25. Vestri var svo sterkara liðið í oddahrinunni sem fór 15-11. Raul var aftur langstigahæstur í liði Þróttar. Tölfræðin var jafnari og aðeins örlítill munur á helstu tölfræðiþáttum.

Breytingar í sumar


Talsverðar breytingar hafa orðið á liði Þróttar í sumar. Janis Jerumanis þjálfar liðið áfram en þeir Svanur og Sölvi Hafþórssynir skiptu yfir í KA en José Martin og Pedro de Lome til Aftureldingar.

Raul er snúinn aftur en hann spilaði með liðinu fyrir tveimur árum. Þá bættust við spænski uppspilarinn Arturo Moreno og Ítalinn Leonardo Aballay sem jafnframt þjálfar hjá Leikni Fáskrúðsfirði.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða