Skip to main content

Bjarnþór Elíasson í kjörstöðu að vinna Íslandsmeistaratitilinn í torfæru

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. ágú 2025 10:52Uppfært 15. ágú 2025 13:23

Ökuþórinn Bjarnþór Elíasson, úr akstursíþróttaklúbbnum START á Egilsstöðum, er í kjörstöðu fyrir allra síðasta mótið á Íslandsmótinu í torfæru sem fram fer á morgun. Hann er á toppnum fyrir mótið og aðeins þrír aðrir keppendur sem geta komið í veg fyrir að hann hampi Íslandsmeistaratitlinum síðdegis á laugardag.

Báðir austfirsku keppendurnir í íslensku torfærunni þetta tímabilið, Bjarnþór og Guðlaugur Sindri Helgason í liðinu Olsen Offroad, hafa staðið sig mjög vel. Bjarnþór sem fyrr segir á toppnum fyrir lokamótið með alls 60 stig, fimm stigum ofar en næsti maður, meðan Guðlaugur vermir fimmta sætið með 33,5 stig eftir fjögur mót í sumar. Mest er hægt að fá 20 stig per keppni fyrir að ljúka öllum keppnisgreinum á hverju móti fyrir sig.

Keppnisstaðurinn er rétt utan Akureyrar og þegar Austurfrétt náði tali af Bjarnþóri í morgun voru þeir félagar með teymi sínu að leggja í hann norður.

„Við erum að fara að halda af stað í þessum töluðu og það er góður andi í hópnum. Það má kannski deila um hvað sé kjörstaða í torfærukeppnum en ég er efstur eins og staðan er í dag og eins og stöðutaflan er þá geta aðeins þrír keppendur náð mér eða farið yfir mig í stigum svo við reynum okkar besta og vonandi dugar það til.“

Keppnisbrautirnar aldrei meira spennandi

Það er ekki svo að keppnisbrautirnar séu eins ár frá ári í torfærunni og skipuleggjendur mótsins á Akureyri fullyrða að brautirnar nú hafi aldrei verið meiri spennandi áður. Þær því efalítið meira krefjandi en verið hefur undanfarin ár en keppendur fá þó ekki að prófa þær fyrir keppni.

„Nei, það er ekki heimilt að prufukeyra brautirnar fyrir mót. Það eina sem við getum gert eftir að á staðinn er komið er að prufa bílana og ganga úr skugga um að þeir séu eins góðir og mögulegt er. Hvorki ég né Guðlaugur höfum í raun breytt bílunum neitt frá síðasta keppnistímabili heldur er bættur árangur nú líklega bara betri skilningur á brautunum, betri stjórn á bílunum og að venjast þeim meira.Undirbúningurinn snýst bara um að bílarnir séu hundrað prósent klárir og við sjálfir líka.“

Streymi frá mótinu

Fyrir þá sem áhuga hafa en komast ekki til Akureyrar verður streymt frá lokamótinu á morgun í gegnum YouTube. Þar þarf  að leita uppi vefinn FuelCut þar sem streymið verður sýnt en keppnin hefst stundvíslega klukkan 10 í fyrramálið.

Bjarnþót á torfærubíl sínum fyrr í sumar en honum aldrei áður gengið eins vel og þetta sumarið. Keppnisfélagi hans Guðlaugur Sindri er líka mjög ofarlega fyrir lokamót Íslandsmótsins. Mynd: Skjáskot