Birna Jóna á leið á EM í frjálsum
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. júl 2024 11:11 • Uppfært 11. júl 2024 11:13
Birna Jóna Sverrisdóttir, frjálsíþróttakona frá Egilsstöðum, tekur þátt í Evrópumóti 18 ára og yngri sem haldið verður í næstu viku. Hún sótti silfurverðlaun á alþjóðlegu móti um síðustu helgi.
Birna Jóna keppti um síðustu helgi á Gautaborgarleikunum og varð önnur í sleggjukasti í 17 ára flokki. Hún kastaði þar 57,95 metra með 3 kg sleggju. Sænsk stúlka fædd 2008 átti lengsta kastið, 60,07 og vann með nokkrum yfirburðum.
Næsta verkefni Birnu Jónu er EM U-18 ára sem hefst í Banska Bystrica í Slóvakíu eftir viku. Birna Jóna keppir þar í sleggjukasti. Hún er einn þriggja keppenda sem fara frá Íslandi.
Birna Jóna býr um þessar mundir í Reykjavík þar sem hún æfir og keppir undir merkjum ÍR en hún skipti þaðan úr Hetti um síðustu áramót.
Mynd: Frjálsíþróttasamband Íslands/Hlín Guðmundsdóttir