Skip to main content

Aldrei verið hræddur við að láta vaða upp brattann

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. jún 2025 17:49Uppfært 25. jún 2025 17:49

Þeir Bjarnþór Elíasson og Guðlaugur Helgason hafa undanfarin ár farið fyrir Austfirðingum í torfæruakstri síðustu ár þar sem þeir keppa undir merkjum Olsen Offroad. Þeir koma báðir úr Fellabæ sem þar með skartar töluvert háu hlutfalli torfærukeppenda miðað við höfðatölu.

Pabbinn kom syninum á bragðið


Hvað Bjarnþór varðar má rekja áhuga hans á bílum, og torfærunni sérstaklega, til föður hans sem var duglegur að fara með pollann á bílaviðburði og keppnir.

„Svo gerðist það árið 2003 að ég fór með pabba á allra fyrstu keppnina hans Gulla [Guðlaugs] en hann hafði keypt sér bíl árið áður. Það má segja að þá hafi áhuginn á torfærusportinu blossað upp, og er enn að aukast ef eitthvað er. Það hafði lengi blundað í mér að taka þátt í þessu sporti og það tók vissulega lengri tíma en ég gældi við en það gekk að lokum árið 2023,“ segir Bjarnþór.

Honum hefur vegnað vel, varð fimmti í flokki sérútbúinna bíla í fyrra. Hann leiðir Íslandsmótið eftir tvær fyrstu umferðirnar í ár og Gulli er í þriðja sæti. Þriðja umferðin verður ekin í Ylsgrúsum við Egilsstaði á laugardag. Nóg verður um að vera fyrir bílaáhugafólk á Héraði um helgina, en á föstudagskvöld verður bíla- og tækjahittingur við Nettó.

Undirbúningur öllum stundum


Að taka þátt í torfærunni er annars vegar mikil vinna, hins vegar dýrt, einkum fyrir sérsmíðaða bíla. Þeir kosta tugi milljóna og útgerðin yfir sumarið, þar sem eknar eru sex umferðir í Íslandsmóti, hleypur á milljónum. Bjarnþór segist þetta hafast með góðum stuðningi fjölskyldu, vina og fyrirtækja víða um landið því mikill áhugi sé á torfærunni.

„Það er dálítið erfitt að æfa sig beint í þessu sporti. Við getum gert okkar besta til að hafa bílinn eins góðan og mögulegt er en það er eiginlega ekki hægt að æfa sig neitt beint fyrir keppnir.

Fyrst og fremst er þetta undirbúningur; að gera allt úr garði þannig að ekkert klikki í keppnum og þá hvorki hjá okkur né bílunum. Svo þurfum við auðvitað að læra af reynslunni og hafa útsjónarsemi í keppnum. Reyna að finna betri leiðir til sigurs en andstæðingarnir koma auga á.“

Engin hræðsla


Fyrir utanaðkomandi fólk eða áhorfendur sem með fylgjast með, virðist það oft á tíðum beinlínis vera hættulegt að stíga bensíngjöfina í botn til að fara upp snarbrattar brekkur. Það endar stundum með veltum. Bjarnþór segist vera laus við hræðslu þegar farið er af stað.

„Slíkt yrði auðvitað til trafala í þessu sporti ef svo væri en heilt yfir erum við mjög öruggir í öllu sem við gerum. Bílarnir allir eru bókstaflega byggðir utan um okkur ökumennina og öryggið gæti ekki verið betra fyrir okkur.

Að sama skapi er það ekki að trufla neitt sú hugsun um að geta mögulega skemmt bílinn, því ef maður væri að spá í slíku þá væri sjálfhætt í þessu sporti. Það er nánast vitað í hverri keppni að eitthvað mun koma upp á og bilanir eða skemmdir eru reglulegar en við því er búist í keppnum og keppnisteymin eru undirbúin undir slíkt.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.