Skip to main content

Aðlagast blakbænum Neskaupstað: Við þekkjum öll börnin í þorpinu

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. jan 2016 13:44Uppfært 29. jan 2016 13:45

Blakþjálfarinn Ana Maria Vidal Bouza virðist hafa aðlagast lífinu og umhverfinu í Neskaupstað vel. Nálægðin í bænum vegna fámennisins er þó meiri en hún og kærasti hennar Borja, sem einnig spilar með Þrótti, eiga að venjast.


„Þetta er svo lítill bær. Við þekkjum nánast öll börnin í þorpinu því næstum allir spila blak,“ segir Ana í viðtali við netútgáfu La Voz de Galicia, útbreiddasta dagblaðs Galisíu.

Þau hafa notað síðustu mánuði í að ferðast og búið í Belgíu, Cook-eyjum og Guam en völdu að hafa vetursetu í Neskaupstað. Ana spilar með kvennaliðinu og þjálfar karlaliðið sem Borja leikur með.

Í greininni er fjallað um kuldann, norðurljósin og náttúrufegurðina á Íslandi þar sem Ana segist hafa kynnst „þremur selum, fjölda anda og máva“ og Neskaupstaður kynntur til sögunnar sem vagga blaksins á Íslandi.

En hún ræðir líka ókostina sem fámennið og fjarlægðin frá höfuðborginni hefur í för með sér. „Þegar krakkarnir verða 18 eða 19 ára gamlir fara þeir í burtu í nám og í önnur lið. Karlaliðið er með þrjá unga leikmenn og aðra reyndari en í kvennaliðinu erum við þrjár eldri en 18 ára og yngri.“