Skip to main content

Síðasti leikur í körfunni fyrir jól: Það verður allt skilið eftir á gólfinu

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. des 2015 18:53Uppfært 29. des 2015 18:54

Höttur tekur á móti Haukum í síðasta leik sínum fyrir jólafrí í Domino's deild karla í körfuknattleik í kvöld. Fyrirliði Hattar segir leikmenn liðsins ákveðna í að gefa allt sitt í kvöld.


„Það verður skilið allt eftir inná vellinum í kvöld! Baráttan verður í fyrirrúmi," segir fyrirliðinn Hreinn Gunnar Birgisson, fyrirliði Hattar.

Hann segir alla leikmenn liðsins heila og „meira en klára" í leikinn.

Liðin voru saman í riðli í Lengjubikarnum á undirbúningstímabilinu og þá var Höttur ekki fjarri sigri. „Við spiluðum hörkujafnan leik við þá í haust. Við þurfum að spila okkar leik en ekki þeirra í kvöld og þá ætti þetta að vera í góðu."

Fyrir leikinn er Höttur á botni deildarinnar án sigurs í 10 fyrstu leikjunum en Haukar í fjórða sæti með sex sigra.

Vangaveltur hafa verið um framtíð Bandaríkjamannsins Stephen Madison hjá Haukum en eftir því sem Austurfrétt kemst næst verður hann með í kvöld.

Eftir umferð kvöldsins er Íslandsmótið hálfnað og gert verður þriggja vikna hlé yfir jól og áramót.