Vopnafjörður: Stærstu framkvæmdirnar við íþróttamannvirki

Framkvæmdir við íþróttamannvirki taka til sín mest af framkvæmdafé Vopnafjarðarhrepps á næsta ári. Gert er ráð fyrir hátt í 80 milljóna afgangi af rekstri sveitarfélagsins.

Heildartekjur Vopnafjarðarhrepps á næsta ári eru áætlaðar rúmir 1,1 milljarður en gjöld 1,03 milljarður, samkvæmt fjárhagsáætlun sem samþykkt var í sveitarstjórn fyrir jól. Hagnaður eftir fjármagnsliði mun samkvæmt henni nema tæpum 76 milljónum. Stærsti gjaldaliðurinn er fræðslu- og uppeldismál sem tekur til sín 314 milljónir.

134 milljónir eru ætlaðar í framkvæmdir á árinu. Mest rennur í vallarhús við íþróttavöllinn. Til þess verks verður tekið 75 milljóna lán en fjármagn kemur líka að hluta frá Knattspyrnusambandi Íslands. Þá eru áætlaðar 15 milljónir til endurbóta á sparkvelli við skólann.

Af öðrum framkvæmdum má nefna að 12 milljónir í að breyta fjórum leiguíbúðum fyrir aldraða í tvær stærri, átta milljónir fara í undirbúning skólpdæluframkvæmda í Skálanesvík og malbika á götun Sigtún.

Í áætluninni eru talin upp nokkur áhersluverkefni á næsta ári. Má þar nefna aukið fjármagn vegna fyrirséðrar fjölgunar á leikskóla, meira svigrúm til atvinnumála og niðurgreiðslu stórs láns á seinni hluta ársins. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er 45%, sem er eitt það lægsta á landinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar