Von á talsverði úrkomu fram til klukkan níu í fyrramálið

Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun vegna úrkomu á Austfjörðum frá klukkan 17 í dag til klukkan níu í fyrramálið. Rýming húsa á Seyðisfirði stendur því fram til morguns.

Í samantekt Veðurstofunnar segir rigningin valdi auknum grunnvatnsþrýstingi og viðhaldi hárri grunnvatnsstöðu. Áfram sé því hætta á vatnsflóðum og skriðuföllum á svæðinu auk mikils álags á fráveitukerfi sem skapi miklar líkur á vatnstjóni.

Óvissustig er á Austfjörðum vegna skriðufalla en hættustig á Seyðisfirði þar sem þrjár skriður féllu nærri byggðinni í gær. Þar voru um 50 hús rýmd í gærdag. Sú rýming stendur fram til klukkan níu í fyrramálið, samkvæmt tilkynningu frá lögreglu. Staðan verður þá endurskoðuð. Þeir sem eru á rýmingarsvæði að huga að eignum sínum eiga að vera farnir þaðan í síðasta lagi klukkan 16:30.

Í tilkynningu lögreglu segir að gert sé ráð fyrir talsverði úrkomu á Austfjörðum frá klukkan 17 í dag til 9 í fyrramálið. Þá dragi úr en bæti aftur í um klukkan 17 á morgun.

Utan Seyðisfjarðar hefur ástandið verið verst á Eskifirði. Þar hafa smáskriður fallið ofan í árvegi og flætt inn í kjallara húsa vegna hárrar grunnvatnsstöðu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.