Vöktunartæki pöntuð eftir skriðuföllin komin upp

Búið er að koma upp sjálfvirkri alstöð sem pöntuð var til að vakta fjallshlíðina ofan Seyðisfjarðar eftir skriðuföllin þar um miðjan desember. Veðurstofan vill gera tilraunir þar með búnað sem ekki hefur áður verið notaður hérlendis. Hreyfingar í hlíðinni hafa verið óverulega frá því fyrir jól.

Vöktun hlíðanna hafði verið aukin áður en skriðurnar féllu en snarlega var bætt við eftir þær. Mikið af búnaðinum þarf að koma erlendis frá og er hluti þegar kominn. Búnaður til mælingar á hreyfingum jarðlaga kom til landsins í byrjun vikunnar og verður lokið við að setja hann upp í vikunni, að því er kemur í frétt frá Veðurstofu Íslands.

Meðal þess sem komið er upp er sjálfvirk alstöð, sem komin er upp norðan fjarðarins. Hún skýtur geislum í speglum sem komið var fyrir í Norður-Botnum og Botnabrún og nemur hreyfingu á þeim.

Reyna að hraða uppsetningu

Þörf er á fjölbreyttum mælibúnaði því ákveðinn búnaður getur orðið óvirkur við viss veðurskilyrði auk þess sem sum tækin eru mjög sérhæfð. Þannig verður að auki komið upp síritandi GPS stöðvum og sjálfvirkum úrkomumæli í hlíðinni í Neðri-Botnum. Mikill munur getur verið á úrkomu milli staða innan fjarðarins en eining eru mælar í bænum og Vestdalseyri auk mannaðrar stöðvar á Hánefsstöðum.

Reynt er að hraða uppsetningu nýs mælibúnaðar og verða þessi tæki sett upp í janúar. Gengið verður frá mælikerfinu þannig að vöktunartæki sendi sjálfvirkar aðvaranir á vakt Veðurstofunnar þegar ákveðnum þröskuldsgildum í uppsafnaðri úrkomu og hreyfingu jarðlaga er náð.

Nauðsynlegt að rannsaka svæðið

Í frétt Veðurstofunnar kemur fram að til viðbótar við framangreindan búnað séu skoðaðar fleiri leiðir til að vakta fjallshlíðina auk frekari rannsókna á jarðlögum svæðisins. Fimm síritar, sem mæla vatnsþrýsting, eru í borholum í Botnabrún og Þófa. Keyptir hafa verið fimm til viðbótar.

Kannað verður að setja upp togmæla yfir einhverjar þeirra sprungna sem þegar eru. Þeir eru síritandi, mæla gliðnun og hafa reynst vel á Svínafellsheiði. Líklega þarf að rannsaka jarðlög svæðisins með að bora holur sem ná alla leið í gegnum setlögin niður á berg til að fá upplýsingar um dýpri hreyfingu og greina lögin.

Tilraunir með nýjan búnað

Þá hefur Veðurstofan lagt til að búnaður sem ekki hefur verið áður notaður á Íslandi verði prófaður á Seyðisfirði. Þar ber næst bylgjuvíxlmælingar, eða InSar sem sérfræðingar stofunnar leggja til að prófaður verið strax í vetur. Mælingar með InSAR radar eru óháðar skyggni og skila niðurstöðum á hreyfingu fyrir heil svæði. Með slíkum mælingum er hægt að sjá aflögun lands með millimetra nákvæmni.

Meðfram þessu er unnið að athugunum á varnarmannvirkjum fyrir byggðina. Sú vinna fór af stað síðasta sumar en hefur nú verið flýtt. Miðað er við að í vor liggi fyrir fyrstu upplýsingar úr frumathugun á því hvaða varnarmannvirki henti best.

Stöðugleiki færist yfir hlíðina

Í fréttinni kemur ennfremur fram að ekki hafi orðið vart við skriðuföll úr hlíðinni ofan Seyðisfjarðar frá því fyrir jól. Óveruleg hreyfing hefur mælst síðan á Þorláksmessu í daglegum hreyfingum. Vatnsþrýstingur hefur lækkað undir fyrra horf og ekki breyst þótt hlánað hafi eða rignt.

Talið er að jarðlög sem los kom á í skriðuhrinunni hafi að mestu sest í sínar fyrri skorður og að nýtt úrkomutímabil þurfi til þess að skapa hættu á skriðuföllum. Enn er þó talin hætta á að hrunið geti úr skriðusárum en ekki að slík skriðuföll nái byggðinni utan svæðisins þar sem stóra skriðan féll.

Alstöðin komin upp. Mynd: Veðurstofan/Bjarki Borgþórsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar