Vísindastarfsemi á Breiðdalsvík efld með aðkomu Háskóla Íslands

Stofnun rannsóknarsetra Háskóla Íslands hyggst koma á fót Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Breiðdalsvík á grunni starfsemi Breiðdalsseturs. Auglýst hefur verið eftir tveimur stafsmönnum með jarðvísindamenntun til starfa.

„Þetta er tíunda setrið í hópi rannsóknarsetra Háskóla Íslands um land allt og við erum mjög spennt fyrir þessu skrefi. Þetta er fyrsta rannsóknarsetrið sem hefur jarðvísindi í forgrunni,“ segir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknarsetra Háskóla Íslands.

Búið er að auglýsa tvö störf við setrið. Annars vegar starf forstöðumanns, sem jafnframt verður akademískur sérfræðingur við HÍ en farið er fram á að umsækjendur hafi doktorspróf í jarðvísindum. Hins vegar er um að ræða starf verkefnisstjóra, en þar er beðið um próf í jarðvísindum.

„Fyrst um sinn ætlum við að ráða tvo jarðfræðinga. Breiðdalssetur hefur hins vegar haldið á lofti bæði arfleifð dr. George Walkers, jarðvísindamanns og dr. Stefáns Einarssonar, málvísindamanns. Við munum finna leið til að sinna arfleifð dr. Stefáns tilhlýðilega virðingu með einhverjum hætti þó að fyrst um sinn verði verði áherslan á rannsóknir í jarðvísindum. Vonandi náum við síðar að ráða málvísindamann,“ segir Sæunn.

Mikilvægt að tengjast nágrenninu

Ætlast er til þess að starfsmennirnir búi í nærumhverfi setursins. „Það er mikilvægt fyrir starfsemina, þannig verður margt til. Setrin hafa tengst sínum nærsamfélögum og úr hafa orðið skemmtileg verkefni í rannsóknum, miðlun og kennslu en þau hafa meðal annars staðið fyrir námskeiðum fyrir yngri skólastig,“ útskýrir Sæunn.

Umsóknarfrestur um störfin tvö rennur út eftir um viku, annars vegar 9., hins vegar 12. október. Vonast er til að þeir sem fyrir valinu verða geti hafið störf sem fyrst, þó ekki síðar en um áramót. Að auki er stefnt á að ráða á næsta ári sumarstarfsmann til að sinna móttöku gesta og sýningarhaldi.

„Það eru mikil tækifæri til að efla mjög starfsemina sem þarna hefur verið. Aðalstarf starfsmannanna verður að stunda rannsóknir og sinna verkefnum í tengslum við setrið. Við sjáum fyrir okkur verkefni á svæðinu í samstarfið við meðal annars Jarðvísindadeild HÍ en líka halda áfram þeim alþjóðlegu verkefnum sem hafa verið í gangi og ef eitthvað er efla erlend tengsl enn frekar.

Bæði nemendur HÍ og erlendis frá munu geta unnið að verkefnum sínum á staðnum og við önnur verkefni á Austurlandi. Starfsmennirnir geta séð um námskeið eða komið að kennslu við HÍ eins og gildir um önnur setur. Við sækjumst eftir starfsfólki sem er samkeppnishæft um rannsóknafé til að efla og að stunda sjálfstæðar rannsóknir á Austurlandi,“ segir Sæunn.

Arfleifð Walkers áhugaverð

Hugað er að því að setrið á Breiðdalsvík geti tengst öðrum rannsóknarsetrum háskólans í nágrenninu, annars vegar á Egilsstöðum, hins vegar á Höfn í Hornafirði. Þá kemur Náttúruvísindastofnun Íslands að starfinu með að borga hálft stöðugildi verkefnisstjórans. Samningur var undirritaður nýverið milli HÍ og NÍ um að efla rannsóknir í jarðfræði á Austurlandi og auka hlut þeirra verkefna NÍ sem unnin eru eystra. Borkjarnasafn stofnunarinnar hefur verið geymt á Breiðdalsvík frá árinu 2015.

Breiðdalssetur var sett á stofn árið 2010 í gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík. „Aðkoma okkar hefur átt sér töluverðan aðdraganda. Þegar fyrst var leitað til okkar höfðum við ekki fjárhagslegar forsendur til að koma þar á fót rannsóknasetri. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur nú veitt sérstaka fjárveitingu þannig að hægt yrði að koma þessu setri á.

Við höfum fylgst með og átt samstarf við Breiðdalssetur þannig við byggjum á því starfi sem unnið hefur verið undanfarin ár. Einkum er að tengingin við jarðvísindin og arfleifð dr. Walkers sem hefur vakið áhuga okkar sem og það starf sem hefur verið unnið í Breiðdalssetri. Mikil tækifæri felast í rannsóknum á jarðvísindum á Austurlandi. Við erum því mjög spennt fyrir þessari uppbyggingu nýs Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Breiðdalvík,“ segir Sæunn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar