Viljayfirlýsing um stuðning við lýsisverksmiðju: Fundið mikinn áhuga úr Fjarðabyggð

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt undirritun viljayfirlýsingar við lýsisfyrirtækið Margildi þar sem lýst er velvilja og stuðningi í garð mögulegrar verksmiðju fyrirtækisins í sveitarfélaginu. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir yfirlýsinguna þýða að kastljósinu verði enn frekar beint að Fjarðabyggð.


„Við erum þakklátir fyrir stuðninginn og áhugann, sem við höfum svo sem fundið víða en hann hefur verið mjög mikill úr Fjarðabyggð eins og þessi viljayfirlýsing ber með sér,“ segir Snorri Hreggviðsson, framkvæmdastjóri Margildis.

Fyrirtækið hefur undanfarin ár fengið tvo styrki úr Uppbyggingasjóði Austurlands, annars vegar til greiningar á hugsanlegri staðsetningu fyrir lýsisverksmiðju, hins vegar til að greina hráefni frá austfirskum fiskimjölsverksmiðjum.

Verksmiðjunni hefur hins vegar ekki enn verið fundinn staður. „Staðarvalið ræðst af því hverjir fjármagna verksmiðjuna og við bindum vonir við að gildandi aðilar á svæðinu taki þátt. Við höfum kynnt verkefnið fyrir nokkrum fjárfestum eystra og fjárfestum bæði hérlendis og erlendis, sem hafa sýnt áhuga á að fá verksmiðjuna til sín. Við höfum alltaf horft til þess að þetta sé og verði íslenskt verkefni.“

Beinum sjónum okkar enn frekar að Austurlandi

Að sögn Snorra felur viljayfirlýsingin í sér Fjarðabyggð lýsir yfir vilja og jákvæðni í garð verkefnisins og þátttöku í fjárfestingarsamningi í samstarfi við ríkið. Í gildi eru lög sem heimila niðurfellingu ýmissa opinberra gjalda sem stuðnings við nýsköpunarverkefni.

„Fjarðabyggð er eina sveitarfélagið sem gert hefur svona yfirlýsingu við okkur og hún hefur þau áhrif að við beinum sjónum okkar enn frekar að Austurlandi, sérstaklega Fjarðabyggð. Svona samningar geta haft úrslitaáhrif um fjármögnunina og þegar við bætist stuðningur sem verulega munar um stjórnast staðarvalið af því.“

Margildi framleiðir hrálýsi úr síld, makríl og loðnu. Það er í dag unnið í Noregi úr íslensku hráefni en stefnt hefur verið á að reisa verksmiðju hérlendis. Lýsið er unnið úr hráefni úr fiskimjöls- og lýsisverksmiðjum sem hafa vottun á vinnslu til manneldis. Mikilvægt er að vera sem næst slíkri verksmiðju til að tryggja góða samvinnu.

Gott hráefni að austan

Lýsið er einkum ætlað á erlendan markað en til stendur að setja vörur einnig á íslenskan neytendamarkað. Snorri segir gott samstarf hafi verið við austfirsku sjávarútvegsfyrirtækin en töluvert af hráefninu hefur komið frá Síldarvinnslunni. „Á Austurlandi eru góðar verksmiðjur sem framleiða gott hráefni.“

Hann segir þróun framleiðslunnar hafa verið eins og við var að búast síðustu misseri: „sígandi og örugglega.“ Framleitt er eftir pöntunum og er markmiðið að selja nógu mikið þannig að hægt verði að fjármagna verksmiðju á Íslandi. Áætlað hefur verið að hún geti skapað 50-70 störf.

Snorri segir stuðning heimamanna, Uppbyggingasjóðsins og fleiri aðila, svo sem AVS, rannsóknarsjóðs í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóðs, hafa skipt Margildi miklu máli. „Það hafa verið tekin mörg mikilvæg skref en styrkirnir að austan hafa orðið til þess að við höfum bundist svæðinu sterkari böndum en ella hefði orðið.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.