Skip to main content
Lagt er til að notkun reitanna sem merktir eru á myndinni verði víxlað frá því sem nú er í aðalskipulagi. Við það færist tjaldsvæðið á AB-201. Mynd: Fjarðabyggð

Vilja færa tjaldsvæðið á Eskifirði aftur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. okt 2025 08:18Uppfært 27. okt 2025 08:19

Fjarðabyggð hefur lagt fram tillögu um tilfærslu tjaldsvæðisins á Eskifirði. Núverandi tjaldsvæði er víkjandi í skipulagi en nýjasta tillagan gengur út á að sá reitur sem valinn var undir tjaldsvæðið í staðinn verði frekar nýttur undir íbúabyggð.

Núverandi tjaldsvæði Eskifjarðar stendur utan við Bleiksá. Það er skilgreint sem opið svæði í aðalskipulagi þar sem tjaldsvæðið er víkjandi.

Til hefur staðið að flytja það inn í dal, þar sem byggingarland Eskifjarðar er í dag, nánar tiltekið á reit neðan við bæinn sem þéttbýlið dregur nafn sitt af. Milli bæjarins og spennistöðvar Rarik hefur verið gert ráð fyrir íbúabyggð og eru þar skipulagðar fimm lóðir.

Nú er lagt til að víxla þessum tveimur reitum þannig að tjaldsvæðið færist upp fyrir Dalbrautina, á reitinn milli sveitabæjarins og spennistöðvarinnar en íbúabyggðin færist niður fyrir.

Það þykir gefa betri möguleika á að stækka byggðina áfram inn eftir frá götunni Langadal. Verið er að vinna deiliskipulag fyrir svæðið sem yrði tæpir 15 hektarar. Þar er gert ráð fyrir fjölbreyttri íbúabyggð með allt að þriggja hæða húsum. Þar fyrir innan er síðan athafnasvæði.