Vilja að ríkið axli ábyrgð á lokun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli

Bæjarráð Fjarðabyggðar fer fram á að ríkið komi með mótvægisaðgerðir vegna lokunar einnar af brautum Reykjavíkurflugvallar. Það skjóti skökku við að grafið sé undan sjúkraflugi á þann á meðan sveitarfélög úti á landi geri það sem þau geti til að styðja við það.


Yfirlýsing bæjarráðsins kemur í kjölfar undirritunar samnings um uppbyggingu Norðfjarðarflugvallar. Sveitarfélagið og fyrirtæki í Fjarðabyggð leggja til helming þess fjár þarf við malbikun vallarins á móti ríkin.

Í yfirlýsingu bæjarráðs segir að þátttaka sveitarfélagsins og milliganga um fjármögnun verkefnis, sem sé á öllu leyti á forræði ríkisins sé „ekki til eftirbreytni.“ Ríkisvaldinu beri að tryggja þá vinnviði samfélagsins sem snúa að öryggis- og heilbrigðismálum landsmanna og skýtur skökku við að sveitarfélögum og fyrirtækjum sé ætluð aðild að slíkum verkefnum.

Þá mótmælir ráðið harðlega ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um að loka einn af brautum Reykjavíkurflugvallar og lýsir jafnframt „ vonbrigðum með aðgerðarleysi ríkisvaldsins“ þar sem umdeilt sé að ákvörðun borgaryfirvalda skerði þjónustu við íbúa þeirra sveitarfélaga, sem treysti á sjúkraflug til höfuðborgarinnar í neyðartilvikum.

„Það hlýtur jafnframt að teljast undrunarefni, að á sama tíma og sveitarfélag á borð við Fjarðabyggð leitar allra leiða til að tryggja aðstöðu fyrir sjúkraflug, kýs sveitarfélagið Reykjavíkurborg að loka mikilvægri öryggisflugbraut fyrir sjúkraflug á Reykjavíkurflugvelli.

Réttur sveitarfélaga er óumdeildur þegar kemur að skipulagsmálum. Borgarstjórn Reykjavíkur má þó vera ljóst, að sjúkraflug liggur til höfuðborgarinnar, þar sem stjórnvöld hafa byggt upp miðlæga sjúkraþjónustu landsins og hátæknisjúkrahús.

Bæjarráð telur brýnt að sveitarfélög víki sér ekki undan því að leita lausna í almannaþágu, sem nýst geta fleirum en hverju og einu þeirra.

Ríkisstjórn landsins studdi enn fremur á sínum tíma ákvörðun borgaryfirvalda um lokun brautarinnar og hlýtur af þeim sökum að axla ábyrgð á afleiðingum þess með mótvægisaðgerðum.

Fjarðabyggð leggur þunga áherslu á að Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisvaldið komist að ásættanlegri niðurstöðu í þessu brýna almannaöryggismáli.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.