„Vildi gera eitthvað til þess að hjálpa“

„Það er farið að kólna svo rosalega þannig að þetta þarf að komast suður sem fyrst,“ segir Linda Sæberg á Egilsstöðum, en hún hefur tekið að sér að safna saman vetrarfatnaði og fleiru fyrir skjólstæðinga Frú Ragnheiðar í Reykjavík.


Frú Ragnheiður – skaðaminnkun, er sérinnréttaður bíll sem er ekið um götur höfuðborgarsvæðisins á kvöldin, sex kvöld í viku. Markmið verkefnisins er að ná til jaðarsetta hópa í samfélaginu eins og heimilislausra einstaklinga og einstaklinga sem nota vímuefni um æð.

Um helgina birti Frú Ragnheiður eftirfarandi stöðufærslu á Facebook-síðu sinni;

Kæru vinir, eins og þið vitið þá eru margir af þeim einstaklingum sem leita til okkar heimilislausir. Nú hefur veturinn skollið á og því orðið ansi kalt í veðri. Okkur í Frú Ragnheiði langar að athuga hvort einhver af ykkur hefði tök á að gefa hlýjan fatnað eins og úlpur, lopa- eða flíspeysur eða kuldabuxur. Einnig vantar okkur hlýja svefnpoka, teppi og tjöld. Við tökum að sjálfsögðu á móti notuðum fötum og vörum sem eru í góðu ásigkomulagi.

Heimilislausir einstaklingar þurfa oft vegna sinnar stöðu að eyða miklum tíma utandyra. Því er afar mikilvægt að verkefni eins og Frú Ragnheiður geti gefið heimilislausum einstaklingum hlýjan fatnað og annað sem þarf til að lifa af þessar erfiðu aðstæður.
Það er hægt að koma með fatnaðinn og vörurnar á Rauða kross skrifstofuna í Efstaleiti 9 103 Rvk eða hringja í Frú Ragnheiðar símann 7887-123.

Vert er að taka fram að við erum í mjög góðu samstarfi við fataflokkun Rauða krossins og höfum alltaf fengið föt og vörur frá þeim. Það skilar sér hinsvegar mismikið inn af hlýjum fötum sem við getum notað, þess vegna ákváðum við að setja þennan póst inn.

Stöðufærslan var hvatinn að söfnuninni

Linda er með BA-próf í félagsráðgjöf og með diplómapróf í lýðheilsuvísindum með áherslu á forvarnir.

„Ég sá þennan póst og vildi gera eitthvað til þess að hjálpa, en fólk í þessari stöðu er yfirleitt alveg rosalega illa klætt. Þegar ég bjó sjálf í Reykjavík gerði ég alltaf það sem ég gat til þess að aðstoða. Ég vann með heimilislausum konum í Reykjavík og því kynnst þessum málum. Í náminu mínu í lýðheilsufræðum var mikið talað um að heimilislausir séu hópur sem gleymist og það er staðreynd.

Eftir að ég las færsluna fór ég strax og fann til það sem við fjölskyldan áttum heima og datt um leið í hug að kannski vildu fleiri gera slíkt hið sama. Ég setti mig því í samband við Frú Ragnheiði og ætla að taka við hlýjum flíkum og öðru slíku og koma því áfram á réttan stað. Fólk hefur nú þegar sett sig í samband við mig og ég vona að það geri fleiri,“ segir Linda, sem mun safna því saman sem berst og koma því áfram á réttan stað.

Best er að hafa samband við Lindu gegnum síma 697-5829.

Einstaklingum mætt án fordóma

Sjálf kynntist Linda starfsemi Frú Ragnheiðar í sínu starfi þar sem unnið var eftir sömu hugmyndafræði; skaðaminnkandi hegðun með því að mæta einstaklingunum þar sem þeir eru staddir án fordóma.

„Eitt meginmarkmið verkefnisins er að draga úr sýkingum og útbreiðslu lifrarbólgu C og HIV, með því að auðvelda einstaklingum aðgengi að sárameðferð, hreinum nálum og öðrum sprautubúnaði og almennri fræðslu um skaðaminnkun. Þannig er hægt með einföldum og ódýrum hætti að draga verulega úr líkum á því að einstaklingur þurfi í framtíðinni á kostnaðarsamri heilbrigðisþjónustu að halda, sem og auka lífsgæði hans miðað við aðstæður,“ segir Linda.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.