Vikulegar sögugöngur vinsælar á Vopnafirði

„Ég er útivistarmaður og hef gaman af göngum. Að fara svona ferðir reglulega, ferðir sem eru stílaðar inn á að allir geti farið, finnst mér hvetjandi fyrir unga sem aldna í hvaða formi sem er og hvetur fólk til útiveru án skuldbindinga,“ segir Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri á Vopnafirði, en hann er einn þeirra sem hefur leitt vikulega sögugöngu á Vopnafirði í sumar.



Á hverjum mánudegi í júlí og ágúst er boðið upp á göngutúr með leiðsögn á Vopnafirði. Verkefnið hófst í júníbyrjun og er afurð íbúaþingsins Veljum Vopnafjörð. Göngurnar eru mislangar og nýr fararstjóri er í hvert skipti.

Else Möller, verkefnastjóri hjá Austurbrú, hefur haft veg og vanda af skipulagningu verkefnisins.

„Ólafi Áka hefur veirð tíðrætt um sambærilega göngutúra sem fóru fram á Djúpavogi og nutu mikilla vinsælda. Á íbúaþinginu var óskað eftir hugmyndum sem tengdust útivist og ákveðið var að láta á þetta reyna hér,“ segir Else.

Else er ánægð með hvernig til hefur tekist hingað til. „Mér finnst þetta mjög áhugavert og skemmtilegt verkefni. Það er gaman að ganga um sitt nánasta umhverfi en samt fara á staði sem maður þekkir ekki með fólki sem maður hittir sjaldan. Það tekur auðvitað tíma að koma nýjungum af stað, en það gerir ekkert til. Þetta stendur Vopnfirðingum og gestum til boða þannig að við getum í það minnsta ekki sagt að ekkert sé um að vera hér.“

Mæting er við Kaupvang alla mánudaga í sumar klukkan 18:00. Þátttaka er ókeypis.

Söguganga á vopnafirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar