Viðbótarfjármagn til Skaftfells

Rekstur menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells á Seyðisfirði á að vera tryggður út árið eftir að menntamálaráðuneytið veitti viðbótarframlagi til starfseminnar í ár.


Ráðuneytið staðfesti með bréfi til stjórnenda Skaftfells í síðustu viku að það hefði veitt miðstöðinni 6,5 milljóna viðbótarframlag vegna ársins 2017.

Í bréfinu segir jafnframt að ekki komi til frekari viðbótarfjárstuðning til starfseminnar af hálfu ráðuneytisins.

Austurglugginn greindi frá erfiðri stöðu Skaftfells í byrjun maí eftir að bæjarráð Seyðisfjarðar sendi ráðuneytinu bréf um að til til greina kæmi að loka miðstöðinni frá og með 1. júlí næstkomandi.

Undanfarin tvö ár hefur Skaftfell fengið viðbótarfjármagn frá fjárlaganefnd en í ár var verklaginu breytt og valdið er í höndum Menntamálaráðuneytisins. Skaftfell er ein af þremur menningarmiðstöðvum á Austurlandi og fær hver miðstöð átta milljóna framlag árlega, helminginn frá ríkinu í gegnum Samband sveitarfélaga á Austurlandi og afganginn frá sínu sveitarfélagi.

Samkvæmt samningi á miðstöðin að ráða starfsmann og sinna sérstaklega skilgreindum verkefnum. Starfshlutfall forstöðumanns Skaftfells var lækkað úr 100% í 80% í fyrra til að ná niður launakostnaði. Stofnuninni er einnig ætlað að greiða allan annan rekstrarkostnað.

Sumarsýning Skaftfells verður opnuð á laugardag. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar