„Verstu aðstæður sem við getum hugsað okkur að lenda í“ – Myndband

Forgangsatriði er að skipuleggja betur viðbrögð við eldum skóglendi að mati slökkviliðsstjóra Múlaþings. Slökkviliðið þurfti tvisvar í síðustu viku að berjast við elda á slíku svæði.

Fyrri eldsvoðinn var að bænum Freyshólum á Völlum þar sem skemma brann til kaldra kola. Veður þann dag var stillt en og gekk greiðlega að hemja þá glóð sem hafði komist í sinu þar hjá. Vert er þó að hafa í huga að Freyshólar eru inni í því þétta skóglendi sem í daglegu tali er kennt við Hallormsstað.

Hinn bruninn varð á bænum Vífilsstöðum í Hróarstungu á fimmtudagskvöld. Þar fór af stað sinueldur sem barst inn í skóg, en talsverð skógrækt er á bænum.

„Skógareldar eru nokkuð sem við höfum óttast lengi en við sjáum á því sem við berjumst við í þessari viku að þeir eru eitthvað sem við þurfum að fara taka alvarlegar. Það er tímaspursmál hvenær við lendum í einhverju stóru,“ segir Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkvistjóri Múlaþings.

„Eldur í gróðri inni í skógi eru verstu aðstæður sem við getum hugsað okkur að lenda í. Þar er erfitt að koma að stórvirkum vinnuvélum þannig allt verður að vinnast með höndunum.

Þetta er það sem við óttumst mest en við getum átt von á þessu því við búum á svæði þar sem er bæði mikill gróður og skógur en jafnframt byggð inni í þessum skógi. Þess vegna getum við lent í mjög vondum málum.“

Bent á hættuna fyrir áratug

Í áhættuskoðun almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra fyrir landið frá árinu 2011 er hættan af skógar- og kjarreldum talin ein mest ógnin í þáverandi Seyðisfjarðarumdæmi og aðgerða þörf strax með að gera áætlun um viðbrögð við slíkum eldum.

Bent er á að mikil uppbygging nytjaskóga hafi orðið á þurru svæði á Austurlandi og nefnd nokkur dæmi um slíka elda en skýrasta dæmið var þá frá árinu 2009 þegar hektari brann í Víðivallagerði í Fljótsdal.

Hjá lögreglunni á Austurlandi fengust þær upplýsingar í morgun að frá áramótum hefði verið unnið að gerð slíkrar áætlunar undir forustu slökkvistjóranna í Múlaþingi og Fjarðabyggð.

Fleiri en bara slökkviliðið

Haraldur Geir segir ljóst að þörf sé á aðgerðum hið fyrsta. „Það þarf að kortleggja betur þessu svæði sem og vatntökustaði og slóða sem við komumst um. Það heyrir undir okkur í slökkviliðinu og við þurfum að finna okkur tíma í það.

Eins þarf að höfða til þeirra sem eiga landið. Þeir planta sínum skógi og bera ábyrgð á honum. Síðan tengist þetta skipulagi og þess konar hjá sveitarfélögum. Við verðum að gera ráð fyrir að svona geti gerst og ef það gerist að við getum bjargað því sem hægt er,“ segir Haraldur Geir.

Frá sinueldinum á Vífilsstöðum á fimmtudagskvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar