Vel gengur að ná Drangi á flot

Vel gengur að ná togskipinu Drangi á flot í Stöðvarfjarðarhöfn. Byrjað er að dæla sjó úr skipinu.

Bjarni Stefán Vilhjálmsson hafnarvörður á Stöðvarfirði segir að undirbúningur að því að hífa Drang á flot hafi hafist um fimmleytið í morgun. Tveir öflugir kranar eru notaðir til verksins.

„Skutur skipsins er þegar kominn upp og byrjað er að dæla sjó úr því,“ segir Bjarni Stefán. „Það verður svo dælt áfram þar til allt skipið er komið upp.“

Fram kemur í máli hans að aðstæður við að ná Drangi á flot séu sæmilegar hvað veður varðar.

„Þegar búið verður að ná Drangi alveg á flot mun hann verða færður til í höfninni þar til ákveðið verður hvað á að gera við skipið,“ segir Bjarni Stefán.

Uppfært: Mjög vel hefur gengið að dæla úr Drangi í morgun og er skipið núna undir hádegið um það bil að komast á flot.

Mynd: Albert Ó. Geirsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.