Vegir skemmdir eftir mikla vatnavexti

Vatn hefur víða flætt yfir vegi á Austurlandi í miklum vatnavöxtum eftir úrkomu vikunnar. Á nokkrum stöðum eru vegir í sundur.


Fljótsdælingar hafa sjaldan séð aðra eins vatnavexti á þessum árstíma og segja dalinn hreinlega á floti. Lækir komi hvítfissandi niður hlíðarnar og á nokkrum stöðum eru vegir í sundur.

Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar að flætt hefði yfir vegi víða í fjórðungnum. Í Berufirði hefði runnið yfir á þremur stöðum, við bæina Berufjörð og Melshorn og sunnan til í firðinum.

Á suðurströnd Fáskrúðfjarðar flæddi einnig yfir vegi á þremur stöðum. Varað var við ástandinu við Naustá eftir hádegið en þar hefur vatnið sjatnað. Kantar vegarins eru skemmdir.

Í Breiðdal rann yfir veginn innan við bæinn Kleif. Í Skriðdal flæddi við Skriðuvatn. Þá munu lítilsháttar skemmdir hafa orðið á Efri-Jökuldal.

Einhverjar skemmdir urðu hafa orðið en þær verða skoðaðar þegar veðrið lagast. Mesta úrkoma á landinu þennan sólarhringinn er í Neskaupstað, tæpir 130 mm.

Vegur í sundur milli Víðivalla og Hrafnkelsstaða í Fljótsdal. Mynd: Guðbjörg Pálsdóttir.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar