Vatnsskortur orðið vandamál yfir sumarmánuðina í Mjóafirði

Um nokkurra ára skeið nú hefur farið að bera á alvarlegum vatnsskorti í Mjóafirði snemma á vorin og nú hefur heimamaður biðlað til sveitarfélagsins Fjarðabyggðar að lausn verði fundin til að tryggja þar vatn til framtíðar.

Nánast einu vatnsbirgðir Brekkuþorps koma frá Brekkubrunni sem hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar síðustu árin nánast þurrkast upp að sögn Sigfúsar Vilhjálmssonar. Hann hefur óskað aðstoðar sveitarfélagsins vegna þessa reglulega síðustu árin en lítið komið út úr því. Hann ítrekaði ósk sína um úrbætur með bréfi til bæjarráðs í byrjun mánaðarins en þar vísaði ráðið erindinu áfram bæði til skipulags- og framkvæmdanefndar og hafnarstjórnar.

„Langafasystir mín var nú alltaf vön að segja að nóg væri af vatni í Brekkubrunni en það er ekki raunin lengur. Að stórum hluta helgast það af stóraukinni ferðamennsku hér um slóðir en önnur ástæða er hve þurrt hefur verið hér síðustu þrjú, fjögur sumrin. Það hefur komið upp sú staða að vatn hefur hér þrotið nánast alfarið. Við þá þurft að ná í vatn úr eldgamalli leiðslu, sem sett var upp á síldarárunum,  sem tengd er í læk einn hér rétt utan við þorpið en okkur var tjáð hér á sínum tíma að hætta að nota það vatn því það væri einfaldlega ekki í lagi þannig að það er ekki góð lausn.“

Sigfús segir hugsanlega lausn, sem hann benti á í bréfi sínu, að nokkrir sumarhúsaeigendur á svæðinu væru að íhuga að bora eftir vatni við svokallaðan Höfða. Mögulega gæti sveitarfélagið koma að þeim borunum með einhverjum hætti og þannig tryggja öllum íbúum nægt vatn allt árið.

„Ég veit ekki hvort það er fýsileg lausn og hugsanlega má leysa þetta með einhverjum öðrum hætti. En það þarf eitthvað að fara að gerast í þessum málum því þeim fækkar varla ferðamönnunum auk þess sem sifellt fleiri einstaklingar dvelja hér í firðinum yfir sumartímann í lengri tíma.“

Til stendur af hálfu bæjarráðs Fjarðabyggðar að halda sérstakan íbúafund á Mjóafirði með vorinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.