Varað við vatnselg við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum

Vegagerðin varar ökumenn á ferðinni milli Norður- og Austurlands við því að vatn geti runnið yfir þjóðveginn við Jökulsá á Fjöllum. Meginleiðir á Austurlandi eru opnar en mokstursbílar eru víða á ferðinni.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni rann vatn inn á veginn við Jökulsá á Fjöllum um tíma í gær. Það gerir það ekki núna en liggur alveg við klæðninguna.

Ástæðan er mikil klakastífla í ánni. Ekkert sé hægt að gera nema bíða og fylgjast með. Reiknað er með að 2-3 dagar líði þar til áin ryður sig.

Helstu leiðir á Austurlandi eru nú færar en fjallvegir voru ýmist þungfærir eða hreinlega ófærir um helgina. Hálka er á Möðrudalsöræfum, Fjarðarheiði, Fagradal, Vatnsskarði og meðfram ströndinni. Snjóþekja er og skafrenningur á Vopnafjarðarheiði og snjóþekja á Jökuldal.

Á fáfarnari leiðum er víðast hvar snjóþekja, en jafnvel þungfært. Unnið er að mokstri víða. Frá Djúpavogi og suður úr er greiðfært.

Hreindýr hafa sést á vappi meðfram vegum síðustu daga, hópur var á Fagradal í síðustu viku og um helgina var varað við dýrum á Völlum.

Spáð er norðan 5-13 m/s, hvassast við ströndina og éljagangi eystra í dag. Veðurstofan hvetur þá sem hyggja á langferðir, einkum til norðurs yfir fjallvegi, að kynna sér vel veðurspár áður en haldið er af stað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.