Varað við úrkomu á Austfjörðum

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna úrkomu á Austfjörðum í nótt og á morgun. Sérstaklega verður fylgst með ástandinu á Seyðisfirði og Eskifirði meðan veðrið gengur yfir.

Viðvörunin gildir frá klukkan eitt í nótt til klukkan þrjú á morgun. Samkvæmt veðurspám byrjar að rigna á Austfjörðum seinni partinn í dag, fyrst syðst og mun gera það næsta sólarhringinn þótt þungi úrkomunnar verði á þeim tíma sem viðvörunin gildir.

Vegna skriðufalla og jarðhræringa á Seyðisfirði og Eskifirði fyrir mánuði verður sérstaklega fylgst með þessum tveimur stöðum meðan veðrið gengur yfir.

Á Seyðisfirði er spáð um 50 mm uppsafnaðri úrkomu á þeim tíma sem viðvörunin gildir. Úrkoman gæti fallið í fyrstu sem slydda en síðan hlýnar. Lengst af verður slydda í yfir 200 metra hæð og snjókoma í yfir 300 metrum. Eftir hádegi á laugardag hlýnar og fer snjólínan þá væntanlega upp í 800-900 metra.

Seinni part laugardags og fram á sunnudag verður áfram einhver úrkoma en ekki er spáð nema 15 mm uppsafnaðri úrkomu á þeim tíma. Vegna úrkomunnar kann að koma til frekari rýminga á Seyðisfirði. Staðan verður metin í dag og kynnt.

Á Eskifirði er spáð um 35 mm uppsafnaðri úrkomu meðan viðvörunin gildir en um 10 mm eftir það fram á sunnudagskvöld. Þar verður heldur hlýrra en á Seyðisfirði og því er búist við að snjólínan verði um 50-100 metrum ofar. Vel er fylgst með hlíðinni ofan þéttbýlisins þar en ekki þykir ástæða til annarra viðbragða vegna úrkomunnar.

Í tilkynningu lögreglu er minnt á að þjónustumiðstöð almannavarna í Herðubreið á Seyðisfirði er opin alla virka daga fra 10-18. Utan opnunartíma er hægt er að senda inn fyrirspurnir á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og hringja í 839 9931 utan opnunartíma og veitir hún þjónustu fyrir íbúa á báðum stöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar