Væri óráð að sleppa aðgerðum á ákveðnum landssvæðum

Sóttvarnalæknir segir ekki koma til greina að hlífa ákveðnum landshlutum við hertum aðgerðum vegna Covid-19 faraldursins, þótt þar sé minna um smit en á höfuðborgarsvæðinu. Slíkar undantekningar gætu dregið faraldurinn á langinn.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á fundi almannavarna fyrir hádegi. Samkvæmt nýjustu tölum af Covid.is eru nú 670 virk smit í landinu, þar af eitt á Austurlandi. Af þeim 2.391 sem eru í sóttkví eru aðeins tveir einstaklingar í fjórðungnum.

Þá voru aðeins þrjú af þeim 59 smitum, sem greindust í gær, utan höfuðborgarsvæðisins. Þórólfur benti þó á að sveiflur væru milli daga á því hvar smit greindust.

Á miðnætti tóku gildi hertar reglur þar sem hæst ber að aðeins mega 20 manns koma saman í einu í sama rými. Þórólfur sagði eðlilegt að takmarkanirnar væru gagnrýndar og meðal annars hefði verið gagnrýnt að aðgerðirnar væru hinar sömu um allt land þótt útbreiðsla veirunnar væri misjöfn.

„Ég vil svara því svo tli að Covid hefur undanfarið verið að greinast í öllum landshlutum. Ég teldi óráð að sleppa ákveðnum landssvæðum við takmarkandi aðgerðir.

Það gæti leitt af sér smit síðar þannig að þá yrðum við að grípa til harðari aðgerða, gætum lent í eltingaleik við veiruna töluvert lengi og tækist þannig miklu síðar að kveða hana almennilega niður.

Þessi nálgun, að láta aðgerðirnar gilda á landinu öllu, verður vonandi til þess að við getum kveðið faraldurinn niður á fullnægjandi máta eins fljótt og auðið er og þannig aflétt aðgerðum fljótt.“

Bæði Þórólfur og Alma Möller, landlæknir, hvöttu landsmenn til að standa saman um aðgerðirnar. Þær væru erfiðar en nauðsynlegar því faraldurinn væri í vexti. „Það er aldrei hægt að gera þannig að allir verði sáttir. Það er eðlilegt að fólk upplifi að hertar aðgerðir séu órökréttar. Þrautseiga og þolinmæði er það sem öllu skiptir og við sáum í vetur að samstaða er besta sóttvörnin.“

Alma áminnti fólk um að vinna og vera heima eftir sem kostur væri, þétta kjarnann í hverja það umgengist, þvo hendur með sápu í 20 sekúndur og bera spritt á algenga snertifleti reglulega, auk þess að spritta hendur eftir snertingu við slíka fleti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.