Útlit fyrir að rýming standi til morguns

Áframhaldandi úrkomuspá á Seyðisfirði þýðir að litlar líkur eru á að íbúar þeirra 50 húsa sem rýmd voru á þriðjudag fái að snúa aftur í dag. Skriða féll í Búðará í morgun.

Samkvæmt tölum Veðurstofunnar hefur rigning mælst 45 mm á Seyðisfirði frá miðnætti. Þar féll lítil skriða við Botnahlíð um klukkan níu í gærkvöldi.

Önnur virðist hafa fallið í Búðará fyrir birtingu í morgun. Hún virðist ekki hafa verið mjög stór en áin hljóp fram með miklum framburði og látum.

Skriðurnar sem féllu á þriðjudag komu úr Botnabrún. Svæðið fyrir ofan hana, Botnarnir sjálfir, voru myndaðir með flygildum í gær sem og skriðurnar sem féllu á þriðjudag. Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavaktar Veðurstofunnar, segir myndirnar góðar og verið sé að rýna þær þessar stundirnar.

Við fyrstu sýn sé ekki að sjá nýjar hreyfingar á svæðinu. Skriðan sem féll niður á Austurveg kom úr Nautaklauf af stað þar sem áður höfðu sést sprungur. Út frá myndunum er einnig reynt að meta gróflega umfang skriðanna en ekki er hægt að senda fólk upp í hlíðina til að kanna þær nákvæmlega meðan skriðuhætta er svo mikil.

Áfram er búist við mikilli úrkomu á norðanverðum Austfjörðum, einkum Seyðisfirði, fram til miðnættis. Aðeins dregur úr rigningunni í nótt en aftur bætir í um hádegi á morgun. Útlit er fyrir að heldur dragi úr aftur um helgina og þá frysti. Vegna þessa er þó litlar líkur á að rýmingunni verði aflétt í dag þótt til standi að endurmeta stöðuna klukkan 17.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi sem barst nú klukkan 12 mega íbúar þeirra húsa sem rýmd voru á þriðjudag huga að þeim og sækja nauðsynjar í fylgd með björgunarsveitarfólki. Til þess þarf að gefa sig fram við vettvangsstjórn í húsi björgunarsveitarinnar Ísólfs. Næstu tilkynning frá aðgerðastjórn er væntanleg um klukkan þrjú í dag.

Óvissustig er í gildi á Austfjörðum vegna skriðuhættu og er fylgst með stöðunni víðar á Seyðisfirði, þótt athyglin sé mest þar vegna atburða undanfarinna daga og úrkomuspárinnar. Annars er fylgst vel með þróuninni á Eskifirði þar sem þó nokkrar smáskriður féllu á þriðjudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.