Tvö hundruð konur fylltu Valaskjálf á kvennafrídaginn – Myndir
Um tvö hundruð konur fylltu sal Valaskjálfar á Egilsstöðum í tilefni kvennafrídagsins í dag. Ræðukonur vöruðu við bakslagi í jafnréttismálum og sögðu það minna á að aldrei mætti slaka á í baráttunni.
Sameiginleg dagskrá var haldin á Egilsstöðum fyrir Múlaþing og Fjarðabyggð. Gengin var kröfuganga frá Söluskála N1 upp í Valaskjálf. Um 120 konur voru í göngunni. Fleiri bættust við í Valaskjálf og sátu alls um 200 konur dagskrána.
„Þögnin er hættulegasti andstæðingur jafnréttis“
Hjördís Helga Seljan flutti einnig ræðu á kvennafrídeginum árið 2005 á Egilsstöðum. Í dag benti hún á að móðir hennar hefði sem unglingur einnig mætt á kvennafrídaginn á Austurvelli árið 1975. „Barátta mömmu er ekki búin, hún er mín líka. Þetta er baráttan okkar,“ sagði Hjördís.
Hún sagði að formlegt jafnrétti væri að mestu tryggt en það þýddi ekki að jafnrétti væri náð. Hún varaði við bakslagi í baráttunni og sagði þar ekki saklaus orð á ferðinni. „Þetta er feðraveldið í nýjum búningi og afturhvarf í það sem við höfum sigrast á.
Ég fagna styrknum sem felst í samtalinu og samstöðunni hér í dag því þögnin er hættulegasti andstæðingur jafnréttis. Við verðum að svara bakslaginu með samstöðu.“
„Fólk fór að hugsa upp á nýtt“
Berglind Sveinsdóttir var níu ára á kvennafrídeginum árið 1975 og man því lítið eftir deginum sjálfum en meira eftir tíðarandanum. „Dagurinn varð til þess að fólk fór að hugsa upp á nýtt. Konurnar töluðu um daginn með stolti og eldmóði. Hann var tákn samstöðu.
Jafnréttismál eru ekki bara kvenréttindamál heldur mannréttindamál. Jafnrétti er ekki bara orð á blaði heldur daglegt viðhorf í öllum okkar ákvörðunum,“ sagði hún.
Að breyta kynslóðum
Ilinca Anton er fædd í Moldóvu og starfar sem stuðningsfulltrúi í Egilsstaðaskóla. Hún sagði aðstæðurnar í fæðingarlandi hennar um margt erfiðar, kannanir sýndu að 70% kvenna hefðu orðið fyrir einhvers konar andlegu ofbeldi af hendi maka og 40 konur látast á hverju ári eftir líkamlegt ofbeldi. „Ég get ekki horft á þessa tölfræði án þess að finna fyrir sorg og ábyrgð.“
Hún lýsti jafnrétti á Íslandi „ekki bara sem draumi heldur raunveruleika“ og umræðan væri opinber. Ekki væri samt allt fullkomið og enn geisuðu innri átök. Hún sagði mikilvægt fyrir konur að geta tjáð sig án ótta til að geta endurbyggt sjálfmyndina. „Það breytir ekki bara einu lífi heldur kynslóðum,“ sagði hún.
Ekki öfgar að krefjast jafnréttis
Anna Sigrún Jóhönnudóttur ræddi bakslagið í sinni ræðu og sagði klukkunni snúið til baka víða um heim. Hún sagði að þegar óöryggi kæmi upp í samfélögum væru kvenréttindi fyrsta fórnarlambið því þau riðluðu hefðbundnum valdahlutföllum. Hún vísaði til rannsókna um að aukin völd kvenna í samfélögum leiði til meiri hagsældar og öryggis. „Þetta er orðið svo þreytt dæmi að vera sem úthópaðar öfgafullar því við krefjumst jafnréttis.“
Tónlistaratriði fluttu þær Ína Berglind Guðmundsdóttir, Bergljót Halla Kristjánsdóttir og Margrét Dögg Guðgeirsdóttir. Þá voru spiluð myndbönd sem gerð voru með nemendum í Egilsstaðaskóla og Menntaskólanum á Egilsstöðum með hugleiðingum þeirra um stöðu kvenna innan veggja heimilisins.