Tónlistarhátíðum í Neskaupstað frestað

Viðburðum sem fara áttu fram næstu daga er ýmist frestað eða aflýst einum af öðrum eftir að hertar samkomureglur tóku gildi á miðnætti. Búið er að fresta Köld sem átti að hefjast í kvöld og Eistnaflugi í sumar.

Eyjólfur Kristjánsson átti að hefja leikinn á Köld en af því verður ekkert. Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir að staðan verði skoðuð eftir páska. Miðaeigendur eiga von á tölvupósti á næstu tímum um miðamál.

„Takk fyrir að taka þátt. Það var gaman að sjá svona góða mætinu og við sjáumst vonandi fljótlega eftir páska,“ segir í tilkynningu.

Þá var í gær tilkynntum að þungarokkshátíðinni Eistnaflugi verið aflýst í sumar, annað árið í röð. Keyptir miðar á hátíðina bæði nú og í fyrra gilda á hátíðina 2022. Eins er hægt að fá endurgreitt.

Hátíðahaldarar útiloka þó ekki að eitthvað gerði gert í sumar. „Við lifðum enn í voninni um að við gætum haldið einhverskonar hátíð en þurfum að játa okkur sigruð í bili. Við eigum okkur enn draum um að geta gert eitthvað skemmtilegt í sumar og verðið þið fyrst til að frétta af því ef sá draumur rætist.“

Með reglunum sem tóku gildi á miðnætti er fleiri en tíu einstaklingum fæddum 2014 eða fyrr bannað að koma saman. Þá er bann lagt við sviðslistum eða slíku skemmtanahaldi auk íþrótta sem krefjast sameiginlegs búnaðar eða minni nándar en tveggja metra. Það hefur þau áhrif að leik Hattar og Vals í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, sem fara átti fram á Egilsstöðum í kvöld, er frestað um óákveðinn tíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar