Tókst að útvega nær öllum leikskólapláss

Tekist hefur að útvega nær öllum sem vildu leikskólapláss á Egilsstöðum og nágrenni úrlausn sinna mála. Aðeins skorti örfá pláss fyrir yngstu börnin sem sótt hafði verið um pláss fyrir í vor þegar lausum plássum var úthlutað.

Helga Guðmundsdóttir fræðslustjóri Fljótsdalshéraðs segir að nánast allir foreldrar sem sóttu um í vor og hafi getað átt von á plássi hafi fengið það. Það voru aðeins örfá börn sem urðu ársgömul síðla sumars sem ekki fengu pláss en þau áttu hins vegar möguleika á plássi hjá dagforeldrum.

„Það sem gerist svo í sumar og haust er að ungt fólk flytur hingað í töluverðum mæli og það vantar leikskólapláss,“ segir Helga. „Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt að fólk vill flytjast hingað. Við verðum að bregðast við þeirri þróun með því að fjölga plássum, og sú vinna er reyndar í fullum gangi, því verið er að hanna nýjan leikskóla sem gert er ráð fyrir að rísi í Fellabæ á næsta ári og þar bætast við 20 leikskólapláss.“

„Við eigum þrjár alveg dásamlegar dagmæður hér á Egilsstöðum og þar eiga yngstu börnin gott athvarf,“ segir Helga. „Leikskólarnir okkar hafa brugðist við og hafa fundið leið til að bjóða flestum eldri leikskólabörnunum sem nýlega eru flutt til okkar pláss, og við höfum líka getað boðið foreldrum pláss í leikskóladeildinni í Brúarásskóla, en um 20 kílómetra keyrsla er þangað frá Egilsstöðum.“

Í fundargerð hjá fræðslunefnd frá í haust segir m.a.: „Fræðslunefnd leggur til að kannað verði hvort hægt sé að finna hentugt húsnæði sem gæti þjónað hlutverki leikskólahúsnæðis til skamms tíma.

Jafnframt leggur nefndin áherslu á þó gert sé ráð fyrir viðbótarleikskóladeild í nýjum leikskóla í Fellabæ, mun það duga skammt til að tryggja varanlega langtímaþörf fyrir leikskólarými í sveitarfélaginu. Því verði strax farið að hefja undirbúning að framkvæmd við leikskóla á Suðursvæðinu á Egilsstöðum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.