„Tímabært að það sé einn lendingarvefur“

„Með þessu móti verður bæði hægt að fræðast um ný og spennandi störf auk þess að kynna sér hvernig mannlífið og staðirnir eru utan vinnutíma,“ segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, en nú er hægt að skoða öll auglýst störf á Austurlandi á vefnum Austurland.is



„Við opnuðum vefinn Austurland.is formlega í mars 2017. Þetta er lífsstílsvefur og ákveðin gátt inn í fjórðunginn þar sem hægt er að fræðast um mannlífið á Austurlandi, bæina og ýmislegt fleira. Við fundum fyrir miklum áhuga á vefnum, sem bæði er á íslensku og ensku, en fólk nefndi að þetta vantaði svolítið.

Margir hafa orðið virkilega áhugasamir um Austurland við það að skoða vefinn og þá kannski einnig fyrir því að flytja austur en þá hefur verið nauðsynlegt að víkja af síðunni til að skoða störf annars staðar og þá kannski leita á mörgum miðlum. Því er tilvalið að safna saman þeim störfum sem eru í boði á Austurlandi inn á einn stað, en við hvert þeirra eru myndir af bæjarfélaginu og tengdar greinar sem birst hafa á síðunni undir störfum þegar við á. Það er algjörlega tímabært að það sé einn lendingarvefur þar sem áhugasamir verðandi íbúar Austurlands geti kynnst okkur og séð tækifærin á svæðinu,“ segir María.

Sjá auka umferð á síðunni
María segir að komið hafi á óvart hve mikið sé af lausum störfum í fjórðungnum. „Ætlunin er að endurbirta atvinnuauglýsingar sem hafa birst annars staðar, m.a. í Dagskránni, á heimasíðum sveitarfélaga og víðar. Við þessa yfirferð höfum við til dæmis séð að mikill skortur virðist vera á leikskóla- og grunnskólakennurum.

Þetta fer vel af stað og við sjáum aukna umferð á síðunni, ekki bara inn á starfahlutann, heldur einnig greinarnar sem þar eru. Við höfum einnig verið í samskiptum við sveitarfélögin sem taka síðunni vel og segja að hún sé til bóta fyrir fjórðunginn.“


María segir að þessi hluti síðunnar verði uppfærður í það minnsta vikulega og vill því hvetja fyrirtæki og stofnanir að senda afrit af atvinnuauglýsingum sem birst hafa á öðrum miðlum á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar