Þungur róður að manna leikskóla með réttindafólki

Það hefur verið þungur róður að manna leikskóla á Austurlandi með réttindafólki, þ.e. menntuðum leikskólakennurum í ár. Aðeins um þriðjungur starfsmanna leikskóla er menntaður til starfsins aðrir eru leiðbeinendur. Hinsvegar hefur gengið vel að fá kennara með réttindi í grunnskólana á Austurlandi.

Þetta kemur fram í máli Sigurbjörns Marinóssonar forstöðumanns Skólaskrifstofu Austurlands. Hann segir hvað grunnskólakennara varðar að þær stöður séu að mestu mannaðar með réttindafólki.

„Þetta er svolítið misjafnt eftir stöðum og því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða,“ segir Sigurbjörn í samtali við Austurfrétt. „Það hefur verið auðvelt að fá menntaða grunnskólakennara í fullt starf en erfiðara þegar um hlutastörf er að ræða.“

Alls voru 1442 nemendur skráðir í gunnskóla á Austurlandi í síðasta mánuði og 653 leikskólabörn. Þetta er álíka mikill fjöldi og var á síðasta ári.

„Hvað mannahald á leikskólum með menntuðu starfsfólki varðar er það mun þyngri róður en í grunnskólunum,“ segir Sigurbjörn. „Þetta er sérstaklega erfitt í minni byggðalögum.“

Skólaskrifstofan sér einnig um margvíslega stoðþjónustu, svo sem sálfræðiþjónustu við nemendur. Sigurbjörn segir að biðlistar eftir þessari þjónustu séu orðnar alltof langir.

„Við erum með tvo sálfræðinga og þyrftum að bæta við að minnsta kosti einu stöðugildi þar,“ segir Sigurbjörn. „Við höfum sótt um slíkt en það bíður væntanlega úrlausnar hjá hinu nýja sveitarfélagi Múlaþingi eftir kosningarnar nú í september.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.