Skip to main content

Þjóðbraut verði ríkishlutafélag um samgönguframkvæmdir að færeyskri fyrirmynd

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. júl 2025 12:24Uppfært 02. júl 2025 12:24

Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður að tillögu til þingsályktunar um að kanna möguleikann á að stofna ríkishlutafélag til að flýta framkvæmdum í vegakerfinu, líkt og Færeyingar hafa gert. Félagið myndi afla sér tekna með veggjöldum.


Samkvæmt tillögunni er innviðaráðherra falið að gera heildstæða úttekt á stofnun félagsins. Það yrði hlutafélag sem fjármagnaði, byggði, ætti og ræki samgöngumannvirki á borð við stofnbrautir, jarðgöng og stórar brýr.

Jens Garðar leggur til að félagið heiti Þjóðbraut og sæki fyrirmynd sína í færeyska félagið Tunnil pf., sem heldur utan um fjögur neðansjávargöng sem tengja saman eyjar í Færeyjum. Meðflutningsmenn tillögunnar eru þingmenn úr öðrum stjórnarandstöðuflokkum, það er Framsóknarflokki og Miðflokki.

Veggjöld standi undir rekstri og nýframkvæmdum


Í tillögunni segir að félagið eigi að hraða uppbyggingu samgöngumannvirkja sem verði að hluta fjármögnuð með veggjöldum. Hún hefjist eins fljótt og hægt er við valin samgöngumannvirki sem ríkið á til að tryggja félaginu tekjur.

Vísað er í tekjumódel Hvalfjarðarganganna sem fordæmi þannig áskrifendur greiði lægra verð en þeir sem kaupa stakar ferðir. Nánar tiltekið er þar sé sérstaklega átt við erlenda ferðamenn. Í greinargerð segir að tilefni sé til að skoða nýjar leiðir til að flýta uppbyggingu samgöngumannvirkja sem hafi tafist því þau séu dýr og tæknilega flókin og þessi aðferð hafi reynst vel í Færeyjum.

Þar hafi umferð um jarðgöng reynst meiri en spáð var, sem aftur varð til þess að hægt var að greiða göngin hraðar upp en búist var við. Það þýðir aftur að hægt hefur verið að lækka gjöld fyrir heimafólk síðar.

Gjöld eru þó innheimt áfram, annars vegar til að standa undir rekstrarkostnaði, hins vegar til að undirbúa fjármögnun nýrra ganga. Að eitt félag haldi utan um göngin einfaldar ýmislegt, ekki síst notendum að greiða fyrir ferðirnar. Þar fyrir utan hafa jarðgöngin reynst samfélagi og atvinnulífi í Færeyjum mikilvæg.

Hvalfjarðargöngin eru gott dæmi


Í greinargerðinni er bent á að hérlendis hafi verið góð reynsla af Hvalfjarðargöngunum. Nefnd eru nokkur dæmi um verkefni sem gætu hentað, svo sem endurbætur á Vestfjörðum, tvöföldun Vesturlandsvegar, uppbygging brúa á Norðausturlandi og ný Hvalfjarðargöng.

Bent er á að inni í slíku félagi yrði til sérhæfing við rekstur samgöngumannvirkjanna, innheimtu gjalda og þjónustu við vegfarendur. Vegagerðin sæi um framkvæmdir og hönnun í samstarfi við Þjóðbraut. Í Færeyjum er Landsverk systurfélag Vegagerðarinnar og sér um framkvæmdir á landi, meðal annars öll jarðgöng.

Í framsöguræðu sinni tók Jens Garðar líka dæmi af sambærilegum félögum í öðrum löndum. Í Noregi er veggjaldafélag sem fjármagnar hluta þjóðvegaframkvæmda og í Frakklandi og á Spáni séu hraðbrautir reknar af slíkum félögum. Af þessum félögum megi læra hvernig best sé að gera hlutina.

Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn/Birgir Ísleifur