Þingmannafundir halda áfram í kjördæmaviku

Þingmenn úr ýmsum flokkum verða áfram á ferðinni á Austurlandi næstu daga enda stendur kjördæma vika yfir á Alþingi. Tímasetningu á fundi með forsætisráðherra hefur verið breytt frá því sem áður var auglýst.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, verður á opnum fundi í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 20:00 í kvöld. Með henni verður Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi. Vakin er athygli á því að fundurinn var upphaflega auglýstur klukkan 17:30.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra er væntanlegur austur seinni hluta vikunnar. Hann verður með opinn fund í Þórðarbúð á Reyðarfirði klukkan 17:30 á fimmtudag og í Tehúsinu á Egilsstöðum klukkan 20 um kvöldið.

Á miðvikudag verða þingmenn Pírata á ferð um svæðið. Þingmennirnir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Halldóra Mogensen, Gísli Rafn Ólafsson og Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, verða á Hildibrand í Neskaupstað klukkan 20.

Í síðustu viku voru opnir fundir með Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar og Loga Einarssyni, þingmanni kjördæmisins og um síðustu helgi fór þingflokkur Sjálfstæðisflokksins um svæðið. Þá var opinn fundur með Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, en hún er á ferð um landið til samráðs um nýja ferðamálastefnu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.