„Þetta er það sem samfélagið okkar gengur út á“

Nemendum og starfsmönnum Grunnskóla Reyðarfjarðar stendur nú til boða að fá sér hafragraut í morgunmat í skólanum áður en kennsla hefst. Uppátækið er að frumkvæði foreldrafélagsins og skiptast foreldrar á að mæta árla morguns og útbúa graut.



Bryndís Guðmundsdóttir er formaður foreldrafélagsins og segir hún grautartilraunina standa út fram í febrúar og lengur ef vel tekst til, en að hennar sögn hafa að meðaltali 60 nemendur þegið graut í morgunsárið og andrúmsloftið í salnum sé sannarlega huggulegt þessa stund.

En af hverju þessi hugmynd? „Foreldrafélagið ákvað að prófa þetta en það hefur verið í umræðunni að börn gefi sér ekki tíma til að borða morgunmat, til dæmis að þau vakni of seint. Einnig að sum þeirra borði mikið sykrað morgunkorn – en það er staðreynd að þónokkur börn borða ekki morgunmat og sum börn borða Cocoa Puffs eða Lucky Charms í morgunmat.

Hér er eldaður er grautur mánudaga til fimmtudaga. Foreldrafélagið keypti haframjöl á góðu verði en tveir foreldrar standa vaktina í senn, elda graut og koma með mjólk og meðlæti, svo sem rúsínur, kanill eða hvað annað sem hverjum dettur í hug. Höfum við heyrt af skólum sem bjóða uppá hafragraut í nestistímanum, þeim tíma sem börnin okkar borða ávexti, það er þá partur af því sem sveitarfélagið býður upp á, partur af fæðiskostnaði. Það yrði frábær þróun að bjóða uppá slíkt og ef til vill með þessum tilraunum okkar getur við sýnt fram á þörfina og væntingar okkar foreldra til fæðiskosts barna á skólatíma,“ segir Bryndís.


Góð viðbrögð meðal foreldra

Bryndís segir tilraunina einnig tækifæri fyrir þá foreldra sem geta, að láta gott af sér leiða og mynda samstarfsverkefni meðal foreldra.

„Foreldrum ber skylda til að taka þátt í að skapa og hafa áhrif á skólasamfélagið, vera gagnrýnin og láta skoðanir sínar í ljós þegar kemur að skólagöngu barna sinna. Þátttaka og samvinna foreldra er nauðsynleg til að skapa öruggt og jákvætt skólasamfélag.

Stjórnin kallar nokkuð oft eftir sjálfboðaliðum í alls kyns verkefni sem stjórnin stendur fyrir, eins og jólaföndur, jólastréstendrun, bekkjartengla og fleira. Viðbrögðin eru yfirleitt lítil sem engin. En þegar óskað var eftir þátttöku í gerð hafragrauts voru mikið betri viðbrögð, svörin voru hrein og bein, já eða nei, eða spurningar um ástæður og framkvæmd. Alls samþykktu 35 foreldrar þátttöku og eftir að þetta var sett af stað hafa fleiri foreldrar óskað eftir að vera með í næsta holli. Hvenær það verður er óljóst, eigum eftir að fá viðbrögð við að endurtaka leikinn.“


Ekki sömu aðstæður hér og á höfuðborgarsvæðinu


Umræðan í samfélaginu er oftar en ekki á þann veg að fólk sé afar upptekið. Nýverið var frétt þess efnis að leikskólar Hjallastefnunnar í Reykjavík bjóði fjölskyldum barna á leikskólanum upp á að taka með sér tilbúin kvöldmat frá Gló tvisvar í viku frá miðjum janúar. Er þetta gert til þess að mæta því gríðarlega álagi sem er á margar barnafjölskyldur. Skýtur þessi tilraun foreldrafélagsins ekki skökku við, að vera að bæta vinnu á foreldra?

„Ég las mér til um þjónustu í leikskólum Hjallastefnunnar, þau bjóða upp á skólabíl, máltíðir og fleira sem þeir eru að skoða, til dæmis þvotta og panta og sækja matvörur. Hugsjón þeirra sýnist mér vera miðuð við aðrar aðstæður en við búum við, að búa á höfuðborgarsvæðinu er margt ólíkt og að búa út á landi. Þá er Hjallastefnan einkarekið fyrirtæki sem hefur ef til vill aðrar forsendur til að bjóða uppá þessa þjónustu.

Hvoru megin við áramót eru 80-90 skóladagar. Í okkar skólasamfélagi eru um 100 fjölskyldur, svo í bjartsýni getum við reiknað með að þegar flestir, jafnvel tvenn foreldri úr hverri fjölskyldu, bjóða sig fram og þá þarf hver og einn að mæta einu sinni fyrir áramót og einu sinni eftir áramót, milli klukkan sjö og níu að elda. Við litum ekki á þetta sem auka álag á fjölskyldur, heldur tækifæri til að taka þátt og gefa af sér.

En þó að við myndum bjóða uppá graut í nokkrar vikur í senn, taka pásu og taka aftur nokkrar vikur þá er það líka mjög gott. Margt smátt gerir eitt stórt. Margar hendur vinna létt verk. Ég gæti mögulega haldið áfram að finna málshætti en þetta er það sem samfélagið okkar gengur útá, hjálpast að og setja okkar mark á hvern þann kima samfélagsins sem við viljum. Framhaldið fer eftir þátttöku foreldra og munum við kanna hana og halda svo áfram.“

Hafragrautur2 

hafragrautur3

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.