„Teikna eitt stykki hótel og gleyma jafnvel vatnsveitunni“

Aukning ferðamanna reynir á ýmsa innviði samfélaga. Nýir gististaðir utan þéttbýlisstaða spretta svo hratt upp að ekki er hugsað fyrir fráveitu og jafnvel ekki vatnsveitu áður en farið er af stað. Byrjað er að bóka gistingu áður en öll leyfi eru komin.


„Verst af öllu er þegar fólk gerir hlutina án þess að spyrja, þá hefur heilbrigðiseftirlit ekki færi á að leiðbeina. Við höfum þurft að gera kröfur um úrbætur og stundum hafa verið komnir skólppollar við enda hreinsivirkja sem ekki hafa undan auknu álagi,“ segir Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST).

Hvers konar sala gistingar hefur margfaldast á undanförnum misserum og hún reynir mjög á vatns- og fráveitur. Innan þéttbýlis eru veitumál á hendi sveitarfélaga en utan þess á ábyrgð ábúanda. Þegar menn fá þá hugmynd að leigja út sumarbústaðinn eða byggja við þá litlu gistingu sem fyrir var gleymist oft að huga að veitumálunum.

Ekki hægt að bæta stöðugt inn á kerfið

„Við gefum út starfsleyfi fyrir fráveitum þéttbýliskjarna sveitarfélaga og eigum að fylgjast með og gera athugasemdir við veitur einstakra húsa sem ekki eru tengd veitum þéttbýliskjarnanna. Ef stöðugt er bætt inn á heimiliskerfið endar það með að það veldur ekki álaginu.

Því miður höfum við þurft að gera töluvert af athugasemdum. Það er nánast þannig að menn teikna eitt stykki hótel, svo er hugað að vatnsveitunni og síðast fráveitunni,“ segir Helga.

Dæmi er um að ekki hafi verið hugsað fyrir neysluvatni þegar farið var af stað með hótelbyggingu. „Sú vatnsveita sem treysta átti á stóðst ekki. Þegar þetta var ljóst var brugðist hratt við og ekki opnað fyrr en málin voru komin í lag en maður verður svolítið hissa að þurfa að benda rekstraraðila á þetta.“

Selja gistingu án þess að vera með tilskilin leyfi

Helga bætir við að framkvæmdaaðilar geri sér ekki grein fyrir í hvaða umhverfi 100 manna gististaður inni í landi býr við. Þar sem ekki er aðgangur að sjó þarf að fullhreinsa frárennsli með að minnsta kosti tveggja þrepa hreinsun og stífar kröfur eru um hverju má skila út í yfirborðsvatn eða grunnvatn, sem eru viðtakar þar sem ár eru ekki til staðar. Almennt bregðist menn vel við ábendingum.

Austurfrétt/Austurglugginn greindi frá því síðasta haust að HAUST hefði gefið út tvö skilyrt starfsleyfi vegna sölu gistingar með kröfu um að við vaska væru merkingar um að vatnið væri ekki af tryggum neysluvatnsgæðum og gestum ráðlagt að sjóða vatn eða drekka flöskuvatn.

„Rekstraraðilar eru oft búnir að auglýsa og bóka gistingu áður en tilskilinna leyfa er aflað. Við sáum fram á að tekið yrði á móti gestum þótt við gæfum ekki út leyfi enda erfitt að vísa fólki á aðra gististaði á háannatíma. Okkur ber að tryggja öryggi gesta og það gerðum við með að skylda rekstraraðila til að upplýsa og leiðbeina gestum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.