Takmörkuð áhrif af virkjun Þverár á fiskgegnd í Hofsá

Virkjun Þverár í Vopnafirði ætti ekki að hafa teljandi áhrif á fiskigegnd í Hofsá, einni öflugustu veiðiá landsins. Nokkur áhrif verða á votlendi á virkjanasvæðinu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í frummatsskýrslu um umhverfisáhrif sem verkfræðistofan Mannvit vann fyrir Þverárdal ehf., dótturfélag Arctic Hydro, sem kannar möguleikann á virkjun Þverár. Náttúrufræðistofa Austurlands rannsakaði lífríkið á virkjanasvæðinu.

Hugmyndin er að stífla Þverárna í ríflega 200 metra hæð og leiða vatn úr lóninu um 5,5 km leið niður í stöðvarhús sem verður nokkurn vegin þar sem Þverá fellur í dag í Sunnudalsá. Með þessu fæst rétt yfir 200 metra fallhæð og mun virkjun framleiða 6 MW.

Rafmagnið verður leitt með jarðstreng 11 km leið í aðveitustöð við Vopnafjörð þar sem það tengist almenna raforkukerfinu.

Reiknað er með að 7,7 hektarar gróðurs fari undir mannvirki og vatn við virkjunina, þar af 1,3 hektari votlendis. Í samantekt Náttúrustofunnar kemur fram að virkjunin skerði votlendi sem njóti sérstakrar verndar og þá sé á virkjanasvæðinu víða að finna vistgerðir með hátt eða mjög hátt verndargildi. Engin friðlýst svæði eru á virkjanasvæðinu né háplöntur á válista.

Áhrif á fugla og hreindýr eru talin óveruleg. Helst eru nefndar áhyggjur af fálka sem verpir í Þverárgili.

Í tengslum við virkjun Þverár hefur helst verið rætt um áhrif á fiska, en áin fellur í Sunnudalsá sem aftur fellur í Hofsá, eina bestu veiðiá landsins. Í matsskýrslunni segir að ekkert bendi til þess að áin sé mikilvægt uppeldissvæði fyrir laxa í Hofsá og virkjun hefði því óveruleg áhrif á veiðihagsmuni.

Helst er talið að breytingar gætu orðið á vatnalífi ef rennsli yrði gert verulega, sem er ekki fyrirsjáanlegt nema að vetri til. Grugg gæti einnig haft áhrif en lögð er áhersla á að lónið sé skolað í flóðum.

Ekki er talin þörf á mótvægisaðgerðum til að draga úr áhrifum skerts rennslis á vatnalíf. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir í árfarveginum verði í lágmarki á hrygningartíma, til að takmarka grugg í ánni.

Umhverfisáhrifin virkjunarinnar eru almennt talin óveruleg eða nokkuð neikvæð, sem þýðir að þau eru staðbundin og oft afturkræf. Virkjunin er talin hafa jákvæð samfélagsleg áhrif þar sem afhendingaröryggi raforku á norðausturhorninu myndi aukast og um leið möguleikar á atvinnuuppbyggingu.

Frestur til að gera athugasemdir við frummatsskýrsluna til Skipulagsstofnunar rennur út í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar