Takmarka fjölda og kynna umhverfissjóð til að vernda Víknaslóðir

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, í samvinnu við heimamenn á Borgarfirði, hefur í vetur þróað og kynnt hugmyndir til að takmarka fjölda ferðamanna og tryggja uppbyggingu innviða á Víknaslóðum. Talsmenn Ferðafélagsins segja hugmyndunum hafa verið vel tekið. Betra sé að grípa tímanlega til aðgerða.


Greint var frá fyrirkomulaginu í Austurglugganum í síðustu viku.

Aðgerðirnar sem lagt er upp með skiptast í tvennt. Annars vegar stendur til að takmarka fjölda á hverju gistisvæði á leiðinni við fimmtíu manns hverja nótt. Ferðafélagið er með þrjá skála á leiðinni, í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði og byggist öll gisting á þeim.

Hins vegar stendur til að lækka afslátt ferðaskrifstofa á gistináttagjaldi og renni mismunurinn í sérstakan auðlindasjóð sem nýtist til uppbyggingar og viðhalds á svæðinu.

Gert er ráð fyrir að tekjur sjóðsins nemi 10% gistigjalds á ári. Með því megi vænta að tekjur sjóðsins verði árlega 800.000 krónur eftir 2-3 ár. Þeir fjármunir nýtast síðan Ferðamálahópi Borgarfjarðar til eftirlits, lagfæringa og viðhalds.

Vel tekið í hugmyndirnar

Hugmyndirnar hafa verið þróaðar og kynntar frá síðasta hausti. Því verður haldið áfram á næstu mánuðum en gjaldtakan hefst ekki fyrr en á næsta ári. Þórhallur segir viðtökurnar til þessa hafa verið góðar.

„Við höfum hvergi rekist á neitt nema jákvæðni. Við höfum haft samband við alla landeigendur þar sem skálarnir eru og einhvern á öðrum jörðum. Allir hafa tekið vel í hugmyndir okkar og fagnað að farið væri af stað með þessum hætti.

Málið var kynnt fyrir sveitarstjórn Borgarfjarðarhrepps og þar var engin andstaða og ferðamálahópurinn styður við bakið á okkur. Á þessari vegferð hefur ekki komið neitt fram sem bendir til annars en þetta geti gengið eftir.“

Umræðan um þolmörk ferðamannastaða er vel þekkt eftir mikla fjölgun ferðamanna hérlendis undanfarin ár. Þórhallur segir að ekki sé farið að reyna á þau þolmörk á Víknaslóðum en betra sé að byggja á reynslu annarra og grípa til aðgerða áður en í óefni er komið.

Skáli Ferðafélagsins í Húsavík. Mynd: Ferðafélag Fljótsdalshéraðs

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.