Tæplega 100 milljóna tjón eftir vatnsveðrið

Viðlagatrygging Íslands mun bæta tjón upp á um 100 milljónir króna eftir vatnsveðrið sem gekk yfir Austfirði fyrir viku. Vettvangsskoðun er lokið.


„Þetta er í samræmi við það sem við höfum sagt, að tjón verði að líkindum frekar talið í tugum milljóna, frekar en hundruðum. Við reiknum með að þetta verði undir hundrað milljónum með öllum kostnaði vegna atburðarins,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar.

Upplýsingar liggja fyrir um tjón á 20 fasteignum og átta innbúum og/eða lausafé. Unnið er að gerð tjónamats vegna atburðanna og má gera ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir upp úr miðjum júlí. Heildartjón og kostnaður vegna matsstarfa er áætlaður á bilinu 80-100 milljónir króna.

Starfsmenn Viðlagatryggingar fóru austur síðasta föstudag eftir að tilkynningar bárust um klukkan þrjú um að flætt hefði inn í hús á Seyðisfirði. Vatnsflaumurinn jókst eftir það, Dagmálalægur margfaldaðist að stærð og flæddi yfir Garðarsveg og skriða féll úr fjallshlíð Strandartinds.

Skriðan fór yfir Strandarveg og lokaði honum, auk þess sem hún féll á eitt íbúðarhús og verksmiðjuhúsnæði Síldarvinnslunnar.

Á Eskifirði féll aurskriða á Eskifirði úr hlíðinni ofan við Steinholtsveg sem olli flóði í Hlíðarendaá. Mikið magn af aur og grjóti barst niður farveg árinnar. Talið var að allt að nokkur þúsund rúmmetrar af möl og grjóti hafi komið með flóðinu.

Viðlagatrygging Íslands (VTÍ) bætir tjón sem verður af völdum skriðufalla og vatnsflóða skv. lögum og reglugerð um Viðlagatryggingu Íslands og því fellur það tjón sem varð á viðlagatryggðum eignum undir bótaskyldu VTÍ. Kostnaður vegna ráðstafana sem gerðar voru til að hindra frekara tjón fellur einnig undir bótaskylduna.

Í tilkynningu segir að gott samstarf hefur verið við sveitarfélögin Seyðisfjarðarkaupstað og Fjarðabyggð sem hefur auðveldað skipulag og framkvæmd tjónamats.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.