SVN fær starfsleyfi fyrir fiskimjölsverksmiðju í Neskaupstað

Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi fyrir Síldarvinnsluna hf. (SVN) í Neskaupstað til reksturs fiskimjölsverksmiðju. Í nýja starfsleyfinu er tekið tillit til áforma rekstraraðila um aukna afkastagetu.

Þetta kemur fram á vefsíðu Umhverfisstofnunnar. Þar segir einnig að engin umsögn hafi borist um tillöguna að starfsleyfinu eftir að hún var auglýst í vor. Engu að síður var ákveðið bæta ákvæði í starfsleyfið sem varðar að fylgjast þurfi með því hvort rekstraraðili falli undir viðskiptakerfi ESB með loftslagsheimildir. Starfsleyfið gildir til ársins 2036. Jafnframt fellur eldra starfsleyfi frá 2015 úr gildi.

Allt að 2.380 tonna afköst

Í starfsleyfingu segir m.a. að SVN er heimilt að framleiða fiskimjöl og lýsi úr fiski, afskurði og öðrum fiskafurðum, sem ætlaðar er til vinnslu og endurvinnslu í verksmiðjunni.

Verksmiðjunni er einnig heimil loðnuflokkun og hrognataka og að nýta í framleiðslu sína frákast frá þeirri vinnslu. Heimilt er að reka fiskimjölsverksmiðju með tveimur vinnslulínum á athafnasvæðinu með heildarafköst allt að 2.380 tonnum af hráefni á sólarhring. Einnig er heimilt að reka litla tilraunavinnslu eingöngu vegna rannsóknaverkefna, sem tengd er sömu mengunarvörnum og önnur vinnsla rekstraraðila, með afkastagetu undir 10 tonnum/sólarhring.

Starfsleyfi þetta gildir ekki um aðra vinnslu fiskafurða eða rekstur vélaverkstæðis. Geymsla er heimil í fjórum lýsisgeymum að Naustahvammi 57, þar af 2.900 m3 í stærsta geymi, alls 7.100 m3 . Einnig er heimil geymsla í daggeymi fyrir brennsluolíu á verksmiðjulóð og löndunarvökva, löndunarvatni, blóðvatni og lýsi eftir þörfum í minni geymum.

Mynd: SVN

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar