SÚN styrkir uppbyggingu Egilsbúðar: Með þessu endurheimtir húsið reisn sína

Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) leggur allt að sextíu milljónir til umfangsmikilla viðhaldsframkvæmda á félagsheimilinu Egilsbúðar í Neskaupstað sem ráðist verður í á næstunni.


Samningar þess efnis voru undirritaðir fyrir helgi. Húsið er í eigu Fjarðabyggðar sem býður út viðhald á ytra byrði þess. Gert er ráð fyrir að húsið verð allt klætt og skipt um glugga.

Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN, segir stjórn félagsins um nokkurt skeið hafa skoðað aðkomu að málefnum Egilsbúðar og þetta orðið niðurstaða. Félagið hafi áður stutt við starfsemi í húsinu með kaupum á hljóðkerfi og húsgögnum.

„Allir vita að Egilsbúð er hjarta bæjarins en undanfarin ár hefur húsið látið mjög á sjá. Með þessu endurheimtir Egilsbúð sína reisn en að okkar mati er þetta hús eitt allra flottasta menningarhús Íslands. Nú eru breyttar áherslur í rekstri hússins og Hljóðkerfaleiga Austurlands er með margt skemmtilegt á döfinni.

Öllum Norðfirðingum þykir vænt um Egilsbúð og því held ég að það verði góð sátt um þennan styrk. Ásjóna miðbæjarins mun breytast mikið þegar Egilsbúð verður aftur eins og ný. Þeir sem þekkja mig vita líka að þetta er eitt af mínum hjartans málum að koma Egilsbúð aftur í stand.“

Rekstur hússins var nýverið boðinn út og var samið við Hljóðkerfaleigu Austurlands sem nýtur stuðnings félagasamtaka í bænum. Þannig er markmiðið að gera húsið að ný að félagsheimili með breyttum áherslum.

Frá undirritun samningsins: Frá vinstri Guðjón Birgir Jóhannsson rekstraraðili Egilsbúðar, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Guðmundur R. Gíslason framkvæmdastjóri SÚN og Magnús Jóhannsson stjórnarformaður SÚN.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.