Stúdent frá ME fær styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði

Glúmur Björnsson, nemandi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum tók í sumar við styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands.

Glúmur var í hópi 28 nemenda sem fengu styrki að þessu sinni en styrkþegarnir eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi og innritað sig til náms við Háskólann í haust. Hver styrkur nemur 375 þúsund krónum.

Glúmur lauk námi af náttúrufræðibraut Menntaskólans á Egilsstöðum með ágætiseinkunn. Hann hefur stundað margvíslegar íþróttir, tekið þátt í skátastarfi og þjálfað fimleikafólk. Glúmur stefnir á nám í jarðfræði og hefur sérstakan áhuga á veðri og loftslags- og umhverfismálum.

Við mat á styrkþegum er horft til árangurs þeirra á stúdentsprófi, auk annarra þátta eins og virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangurs á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að styrkja nýnema sem sýnt hafa fram á sérstakar framfarir í námi eða góðan námsárangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar