Stórútkall á Fagradal eftir að hátt í tugur bíla festist í óveðri

Stórútkall var eftir að hátt í tugur bíla festist eða valt á Fagradal fyrir hádegið í dag. Björgunarsveitir, lögregla og sjúkraliðar voru sendir á svæðið. Aðgerðarstjórn almannavarna á Eskifirði var virkjuð í framhaldi af útkallinu.


Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að skyndilega hafi gert snarvitlaust veður á Fagradal þar sem saman fóru mikil ísing, stormur og nær ekkert skyggni. Bílarnir hafi snarsnúist í hálkunni.

Nokkru eftir hádegið var búið að ná öllu fólkinu úr bílunum og fara með það til byggða. Það voru björgunarsveitirnar Ársól á Reyðarfirði og Hérað á Egilsstöðum sem tóku þátt í útkallinu.

Davíð Már segir að engin alvarleg slys hafi orðið á fólki en einhverjir hlutu minniháttar meiðsl eða skrámur. Einn bíll valt en sá sem var í honum slapp með skrámur. Þá fauk rúta út af veginum en engir farþegar voru í henni.

Einnig voru björgunarsveitarmenn sendir upp á Öxi þar sem ökumaður var í vandræðum. Bæði Fagridalur og Öxi eru lokuð.


Davíð Már segir að ástæða sé til að brýna fyrir fólki að vera ekki á ferðinni þegar búið er að vara við slíku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.