Stjórnandi lyftara dæmdur fyrir manndráp af gáleysi við Eggin í Gleðivík

Ökumaður skotbómulyftara hefur verið dæmdur í skilorðbundið fangelsi fyrir að manndráp af gáleysi við listaverkið Eggin í Gleðivík á Djúpavogi í fyrrasumar. Erlendur ferðamaður lést þegar hann varð fyrir lyftaranum sem var að flytja kör full af fiski.

Slysið varð í hádeginu 21. júní 2022 á akbraut við hlið listaverksins. Ökumaðurinn var ákærður fyrir manndráp af gáleysi fyrir að hafa ekið lyftaranum án nægilegrar aðgæslu. Í fyrsta lagi hafi útsýni hans verið byrgt vegna þeirra fjögurra fiskikara sem voru á göfflum lyftarans, í öðru lagi hefði hann ekki ekið á hægri vegarhelmingi og í þriðja lagi ekki gefið gagnandi vegfarenda tíma eða rými til að víkja, eins og kveðið er á um í umferðarlögum.

Listaverkin voru vinstra megin við götuna miðað við akstursstefnu lyftarans ásamt um tveggja metra breiðum göngustíg meðfram eggjunum. Hægra megin var malarsvæði þar sem ferðafólk lagði gjarnan bílum sínum. Sá látni hafði verið í nágrenni listaverkanna að taka myndir.

Ekki hægt að landa við Voginn


Verið var að ferja fisk úr höfninni í Gleðivík yfir að Fiskmarkaði Djúpavogs, um eins kílómetra leið. Fyrirkomulagið var óvenjulegt þar sem ekki var hægt að leggja að aðalhöfninni vegna framkvæmda. Aksturinn hófst um klukkan 11 og var þetta níunda ferð mannsins með farm á lyftaranum.

Ökumaðurinn sagðist hafa séð til hins látna við upphaf akstursins og þeir náð augnsambandi. Hann virðist ekki hafa tekið frekar eftir honum, en séð til annarra ferðamanna á svæðinu, fyrr en hann fann högg koma á lyftarann. Hann hafi við það stöðvað lyftarann og séð þá hinn látna liggja milli fiskikaranna og framhjóls lyftarans. Fleira fólk hafi drifið að, endurlífgun hafin og hringt í Neyðarlínuna.

Sjúkrabíll staðarins var þá í öðru útkalli en strax kom á vettvang fólk með þjálfun í sjúkraflutningum. Engin lögregluþjónn var á staðnum en kallað út frá Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Egilsstöðum. Lögregla var komin á vettvang rúmum klukkutíma síðar. Læknir hafði þá úrskurðað um andlátið.

Niðurstaða réttarkrufningar var að ferðamaðurinn hafi fallið í götuna og kramist undir göfflum eða farmi. Lyftarinn flutti fjögur kör, hvert um 300 kíló að þyngd. Staflinn var alls um tveggja metra hár.

Takmarkað útsýni talin helsta ástæðan


Samkvæmt umferðarlögum skal ökumaður halda ökutæki sínu eins langt til hægri á vegin og kostur er, að teknu tilliti til annarrar umferðar eða aðstæðna. Ökumaðurinn játaði að hafa verið á vinstri helmingi en sagði það hafa verið að forðast holur á hægri helmingnum sem stundum hefðu verið til ama. Þannig hefði hann hagað akstri samkvæmt aðstæðum. Á það féllst dómarinn ekki og taldi sök sannaða að fullu í þessum lið því hann hefði verið á röngum vegarhelmingi.

Ökumaðurinn viðurkenndi að útsýnið hefði ekki verið frábært en þó nægjanlegt því hann hefði séð vel til hliðanna. Þá hefði hann getað horft fram fyrir í gegnum göt á milli karanna. Að mati lögreglu var lélegt útsýni þó helsta ástæða slyssins. Rannsókn lögreglu var gagnrýnd á þeim forsendum að bóma lyftarans væri í hærri stöðu á myndum sem teknar voru heldur en við aksturinn.

Sú staða var ekki skipta máli. Hins vegar kemur í dóminum fram að lögregla hafi gert takmarkaðar mælingar á vettvangi og enga sjálfstæða athugun á aksturshraða tækisins.

Eitt af því sem rætt var í málinu var hvort ferðamaðurinn hefði gengið í veg fyrir lyftarann, þá frá listaverkinu yfir veginn að bíl sínum. Annar ferðamaður sagðist í fyrstu lögregluyfirheyrslu hafa séð manninn ganga í veg fyrir lyftarann. Hann breytti síðan framburði sínum, sagðist ekki hafa séð aðdraganda slyssins, aðeins óhappið sjálft. Ökumaðurinn sagðist ekki hafa getað afstýrt slysi þar sem ferðamaðurinn hefði gengið í veg fyrir hann.

Þá kom fram í vitnisburði ferðafólksins að þau hefðu ekki séð skilti sem vöruðu við umferð vinnuvéla á svæðinu, að minnsta kosti ekki á ensku. Keilur og bönd voru síðar sett upp á svæðinu.

Skylda að festa farm


Varðandi festingu farmsins byggði ökumaðurinn vörn sína á því að hann hefði verið í tæki sérhönnuðu fyrir slíka flutninga. Þar ætti farmurinn að vera tryggilega skorðaður og þess vegna ekki þörf á að binda utan um hann.

Í umferðarlögum segir að farmur skuli vera tryggður og þannig að hann byrgi ekki sýn ökumanns. Í niðurstöðu dómsins segir að það sé beinlínis andstætt lögum að skorða eða festa ekki farm við ökutæki. Dómurinn segir manninn hafa vitað um ferðafólk á ferð um svæðið en samt aldrei á um 150 metra löngum akstri stöðvað ferð sína. Þar með hefði hann ekki sýnt næga aðgæslu og því sé gáleysi hans meginástæða slyssins þar sem annar maður lést.

Við ákvörðun refsingar var meðal annars tekið tillit til þess að ökumaðurinn hefði átt erfitt andlega í kjölfar slyssins en líka beitt sér fyrir úrbótum á öryggi. Festingar séu nú til staðar á lyftaranum og myndavélar.

Ökumaðurinn var dæmdur í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Þá þarf hann að greiða 2,8 milljónir í málsvarnarlaun. Ákæruvaldið fór fram á greiðslu sakarkostnaðar upp á rúmlega 900 þúsund krónur og taldi þar meðal annars fram kostnað við réttarkrufningu, útfararþjónustu og flutningsgjöld. Dómari taldi þetta ekki eðlilegan hluta sakarkostnað og felldi því niður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.