Stefnt á hlutafjárútboð í SVN 10. til 12. maí

Stjórnendur og ráðgjafar Síldarvinnslunnar (SVN), sem unnið hafa að skráningu félagsins í Kauphöllina, stefna á að boða til almenns hlutafjárútboðs dagana 10. til 12. maí n.k.


Þetta kemur fram í frétt í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag. Skráning útgerðarfyrirtækisins á markað muni í kjölfarið fara fram síðari hluta næsta mánaðar.

Í fréttinni segir m.a. að frumkynningar á félaginu með fjárfestum, einkum lífeyrissjóðum, verðbréfasjóðum og fjárfestingafélögum, hófust í síðasta mánuði en á næstu dögum er boðað til frekari fundahalda þar sem fjárfestar munu fá ítarlegri upplýsingar í tengslum við útboðið, meðal annars hversu stór hlutur verður boðin.

Þá segir í fréttinni að ljóst sé að fjórðungshlutur í félaginu verður að lágmarki seldur í útboðinu.

Fram hefur komið í máli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, að eitthvað af hlut Samherja í SVN verður seldur í útboðinu en félagið er stærsti hluthafinn með um 45% hlut.

Ekki er vitað um hve mikið aðrir hluthafar í SVN leggja til af sínum hlutum í útboðið. Hinsvegar hefur komið fram að Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN), sem er þriðji stærsti hluthafinn, hefur áhuga á að auka við sinn hlut í útboðinu.

Þetta kemur fram í samtali Austurfréttar við Guðmund R. Gíslason framkvæmdastjóra SÚN í mars s.l.

„Við ákváðum strax að selja ekkert af okkur hlutum í þessu útboði sem er framundan, en aðrar ákvarðanir hafi ekki verið formlega teknar,“ segir Guðmundur. „Ég bendi hinsvegar á að það er stefna félagsins, og hefur verið lengi, að auka við hlut sinn í Síldarvinnslunni. Og þeirri stefnu hefur ekki verið breytt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar