Starfsstöð RÚV tóm í á þriðja mánuð

Starfsstöð RÚV á Akureyri sinnir fréttaflutningi af Austurlandi á næstu mánuðum á meðan fréttamaður RÚV á Austurlandi er í fríi. Hálft stöðugildi sem stofnað var á Austurlandi síðasta haust var fært annað til að takast mætti að koma upp fréttamönnum á vegum RÚV í öllum landsfjórðungum.


Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður RÚV á Austurlandi er kominn í tveggja mánaða námsleyfi til viðbótar sumarleyfi. Hann kemur aftur til vinnu um miðjan október.

Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, segir að þangað til verði fréttaflutningur af Austurlandi í höndum starfsstöðvarinnar á Akureyri. Fyrirhugaðar eru sérstakar fréttaferðir í ágúst og september sem Ágúst Ólafsson, fyrrverandi yfirmaður RÚV á Austurlandi, fer í.

Stefna RÚV hefur verið að efla á ný starfsemi á landsbyggðinni og vera með starfsmenn í öllum landshlutum. Í kjölfar lækkunar útvarpsgjalds um síðustu áramót var ákveðið að færa til hálft stöðugildi á landsbyggðinni frá Austurlandi til Suðurlands þar sem framvegis verður starfsmaður í fullu starfi. „Þar með verðum við aftur komin með fréttamenn í fullu starfi í öllum landsfjórðungum,“ segir Rakel.

„Á næstu dögum tekur nýr svæðisstjóri RÚVAK, Sunna Valgerðardóttir, til starfa sem tekur við af Freyju Dögg Frímannsdóttur sem leiddi landsbyggðarstarf fréttastofu RÚV og uppbyggingu hennar. Við erum því síður en svo að gefa eftir á landsbyggðinni.

Langtíma markmiðið er enn það sama – að efla enn frekar fréttaflutning í öllum landshlutum og vonumst við til að það gangi eftir á næstu misserum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar