Slá hótelbyggingu á Seyðisfirði á frest

Aðstandendur TindarHótel ehf. hafa ákveðið að slá áformum um uppbyggingu nýs hótels á Seyðisfirði á frest. Ástæðan er versnandi afkoma ferðaþjónusta og óvissa um aðgerðir ríkisins.


„Við teljum á þessum tímapunkti ekki ráðlegt að ráðast í eins viðamiklar fjárfestingar og til stóð þar sem rekstrarafkoman er afar ótrygg,“ segir í yfirlýsingu TindarHótels sem Aðalheiður Borgþórsdóttir skrifar undir.

Í tilkynningunni er rakið að sterk staða krónunnar hafi valdið snarversnandi afkomu í ferðaþjónustu auk þess sem boðaðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hafi mikil áhrif á ákvörðunina.

TindarHótel höfðu áformað að breyta gömlu tunnuskemmunni við Langatanga á Seyðisfirði í hótel og byggja við hana. Til stóð að vera með 42-45 herbergi, veitingastað og spa. Hótelið átti að vera heilsárshótel en talið var vanta hótel á Seyðisfirði sem gæti tekið á móti 20 manna hóp í einstaklingsgistingu.

Mynd: Kubbafabrikkan arkitektar

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar